145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við búum í umbúðaþjóðfélagi þar sem uppsöfnun leifa af plastumbúðum er alvarlegur umhverfisvandi bæði á sjó og landi. Þrátt fyrir þessa staðreynd, og vaxandi þunga í umræðu um leiðir til að draga úr notkun plasts, virðist sem notkun plastumbúða aukist stöðugt. Umbúðum þar sem plasti er blandað við önnur efni fjölgar stöðugt, svo sem í drykkjarvörum sem eru í pappafernum með plasttappa.

Dæmi er um vörur þar sem 6 gr. af kaffi er pakkað í 3 gr. þungar umbúðir sem bæði innihalda ál og plast. Þá er skemmst að minnast páskaeggjanna sem pakkað var í pappa og plast og innihéldu síðan tíu litla plastpoka hvert utan um mismunandi gerðir sælgætis. Þessi blanda umbúða flækir endurvinnslu og flokkun jafnt á heimilum sem á flokkunarstöðvum.

Áætlað er að árlega noti Íslendingar 70 milljónir plastpoka sem jafngildir rúmlega 200 plastpokum á mann. Í janúar síðastliðnum skipaði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp til að vinna tillögur um aðgerðir til að draga úr notkun plastpoka. Hópnum er í starfi sínu ætlað að horfa til þingsályktunar Alþingis frá júlí 2015, ef ég skil rétt, breytinga á EES-samningnum vegna plastpokanotkunar og tillagna Umhverfisstofnunar um það hvernig draga megi úr plastpokanotkun.

Ég vil því spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, hvort við þurfum annan starfshóp til að leita leiða til að draga úr notkun á öðrum plastumbúðum eða hvort mögulegt væri að víkka verkefni hópsins þannig að það nái yfir allar umbúðir sem innihalda plast.

Þá vil ég einnig spyrja hvort einhverjar reglur gildi um takmörkun á notkun plastumbúða á Íslandi og hvaða leiðir ráðherra telur heppilegastar til að draga úr notkun plastumbúða og hvaða leiðir eru heppilegastar til að draga úr notkun samsettra umbúða sem getur reynst flókið að endurvinna.

Það eru spurningarnar sem ég hef óskað eftir svari við.

Mig langar að byrja að velta fyrir mér hvötum til nýsköpunar í umbúðanotkun, hvaða leiðir stjórnvöld hafa þar, hvort frekar eigi að beita hvötum eða hindrunum eða boðum og bönnum; hvort sé líklegra til árangurs og hvort mikilvægara sé að horfa til almennings og neytenda eða til þeirra sem pakka vörunni.