145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[15:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þær mikilvægu spurningar sem hér er varpað fram. Ég minni á mál, sem ráðherra vitnaði í, sem snýst um að draga úr plastpokanotkun, en starfshópur átti að skila niðurstöðu 1. nóvember 2015. Eins og ráðherra sagði hefur því verið frestað til 15. júní 2016. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta gerast fyrr.

Ég tek undir með ráðherra varðandi margt, eins og plastglösin sem við nýtum, auðvitað er skömm að því. Ég var á fundi í Umhverfisstofnun í morgun þar sem áhrifin í hafi komu fram. Við þurfum að hugsa þetta svolítið heildstætt, þ.e. plastpokanotkun og annað slíkt. Lífverurnar, fiskurinn, eru einhvern veginn farnar að gera sér mat úr plasti sem fellur í hafið og umbreyta í óæskileg efni sem við neytum og seljum svo erlendis. Þetta er risavaxið vandamál sem við verðum að reyna að finna leiðir til að taka á. Ef stórar þjóðir geta gert það þá hljótum við að geta gert það líka. Ég vona svo sannarlega að við náum utan um það.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún viti (Forseti hringir.) hvar breytingar á umbúðatilskipun Evrópusambandsins, sem voru til umræðu (Forseti hringir.) þegar þessi þingsályktunartillaga var lögð fram, eru staddar í ferlinu og hvort þær hafi verið samþykktar.