145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka bæði hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur sem og hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa umræðu. Mér stóð ekki alveg á sama þegar ráðherra lagði svo ríka áherslu á vitundarvakningu og fræðslu, þó að ég sé algjörlega sammála því að það sé mikilvægt, en mér létti þegar hún fór að nefna leiðir til úrbóta, til að mynda bann við framleiðslu á ákveðnum plastefnum eða notkun þeirra í ákveðnum tilgangi, skattlagningu, hagræna hvata fyrir umhverfisvænar umbúðir sem og niðurgreiðslu á betri kostum.

Ég fagna því að ráðherra hafi nefnt þessa kosti og vil eindregið hvetja hana til þess að beita sér fyrir því sem fyrst að nýta þær leiðir til að draga úr plastmengun. Þegar gat var að koma á ósonlagið brugðumst við vel við. Það er mikil vá þegar plastefni, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen kom hér inn á, eru farin að skila sér í gegnum fæðukeðjuna út af gríðarlegri mengun í sjó sem og mengun á landi. Þetta er brýnt mál og það þarf að nálgast það af mikill festu, ekki eingöngu með vitundarvakningu.