145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[16:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt mál. Að mínu mati verðum við að gera eitthvað strax. Við höfum ekki tíma til að bíða og pæla í því hvaða leiðir séu færar heldur verðum við að byrja.

Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég tel ekki nóg að hæstv. umhverfisráðherra bendi á hvað hægt sé að gera, heldur verði að taka ákvarðanir. Það er ekki nóg að nefna leiðirnar heldur er vandinn það stór að grípa verður til aðgerða. Mér fannst margar af þeim leiðum sem hæstv. ráðherra nefndi hljóma mjög vel. Vegna þess hversu gríðarlega stórt og mikið vandamál plastumbúðir og plastmengun er held ég að það þurfi hreinlega að fara í margar og fjölbreyttar aðgerðir. Ég vildi helst að hæstv. ráðherra hrinti þeim atriðum sem hún nefndi í framkvæmd sem fyrst og setji lög sem geta hjálpað okkur í þessu efni.