145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ráðherra fór vel yfir margþættan vanda og þá mengun sem fylgir þessari miklu plastnotkun, svo sem mengun í hafi og notkun jarðefnaeldsneytis. Ráðherra rakti líka margar mögulegar leiðir og ég tek undir þær allar og hvet ráðherra til að stíga fyrstu skrefin eins fljótt og mögulegt er.

Ég tók ekki eftir að ráðherra kæmi inn á leið sem víða hefur verið farin í löndunum í kringum okkur þar sem opinberir aðilar hafa sett sér skýra innkaupastefnu varðandi umbúðir, bæði varðandi innkaup á vöru þar sem umbúðir eru óeðlilega hátt hlutfall vörunnar og eins varðandi innihald efna í umbúðum. Ég vil benda á þá leið sem einn möguleika í stöðunni.

Mér finnst fræðsla afskaplega mikilvæg, bæði til neytenda og eins til framleiðenda vöru. Þegar ég hef fengið tækifæri til að heimsækja framleiðendur hef ég oft spurt: Af hverju eruð þið með þessar tvöföldu umbúðir? Ég fæ alltaf svarið: Neytendur vilja þetta. Ég tel mikilvægt að þetta tvennt haldist í hendur.

Grænir hvatar eru afskaplega mikilvægir og hvatar til framleiðenda til að prófa nýjar gerðir umbúða. Mig langar að benda á vatnsflöskuna sem hönnuð var við Listaháskóla Íslands nýlega sem er trúlega ekki tilbúin í framleiðslu en er mjög áhugavert verkefni.