145. löggjafarþing — 100. fundur,  18. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[16:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Meginmarkmið þessa frumvarps er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi í samræmi við það markmið stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum og hafi raunverulegt val um búsetuform þannig að einstaklingar geti í auknum mæli valið á milli búsetuforma.

Auk þess er markmið frumvarpsins að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra.

Frumvarpinu er jafnframt ætlað að stuðla að sjálfbærni í rekstri slíkra félaga á sama tíma og leitast er við að auka svigrúm fyrir fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum ákvörðunarvald um ýmis atriði er áhrif kunna að hafa á rekstur þeirra í samþykktum þeirra fremur en að fjalla um þau nákvæmlega í lögum.

Öll hv. velferðarnefnd stendur að afgreiðslu málsins.