145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvort þær kröfur yrðu gerðar til allra einkarekinna heilsugæslustöðva að arður yrði ekki greiddur af rekstrinum, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að verði gert og áskilið í rekstri þriggja nýrra stöðva sem hann hefur ákveðið að bjóða út til einkarekstrar.

Skriflegt svar hæstv. heilbrigðisráðherra barst, allsnubbótt, þar sem einfaldlega stendur, með leyfi forseta:

„Sömu kröfur verða gerðar til allra einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.“

Þetta er snubbótt svar og ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði verið til svara í þessari viku til að útskýra það. Ég fæ ekki betur skilið út frá svarinu en að hæstv. heilbrigðisráðherra hyggist væntanlega taka fyrir arðgreiðslur út úr þeim einkareknu heilsugæslustöðvum sem eru þegar í rekstri á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt frétt sem birtist um þessi mál í Stundinni nýlega kemur fram að út úr rekstri Salastöðvarinnar hafi verið greiddar 194 milljónir í arð á árunum 2008–2014 og að úr hinni einkareknu heilsugæslustöð við Lágmúla hafi verið greiddar 122 milljónir á árunum 2002–2011.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kosið í svari sínu að fara ekki inn í efnisatriði málsins en segir einfaldlega í því að allar sömu kröfur verði gerðar til opinberra og einkarekinna heilsugæslustöðva. Ég lít svo á, þó að mér hafi fundist svarið snubbótt og fundist ástæða til að gera athugasemd við það þegar ráðherrar svara með þeim hætti að það þarf bókmenntafræðing, hið minnsta, til að lesa út úr svörunum hvað nákvæmlega sé átt við, að hæstv. ráðherra hafi fyrirhugað að öðrum einkareknum heilsugæslustöðvum verði bannað að greiða út arð. Það eru mikil pólitísk tíðindi í þessu svari.

Ef þetta er ekki ætlun hæstv. ráðherra er það kannski ákveðin ábending til hans að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar í þinginu (Forseti hringir.) með skýrum og afgerandi hætti. Það liggur fyrir að ef þetta er réttur (Forseti hringir.) skilningur á svari hæstv. ráðherra eru það veruleg pólitísk tíðindi sem ég held að sé full ástæða til að ræða og hvort þá sé (Forseti hringir.) ekki ástæða til að fara í lagabreytingu og það verði bannað að greiða arð út úr opinberri heilbrigðisþjónustu. Ég bíð spennt eftir því hvenær hæstv. ráðherra verður næst til svara svo hann geti útskýrt hvað hann nákvæmlega á við í þessu svari.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna