145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar undir liðnum um störf þingsins að ræða þjóðgarðinn á Þingvöllum sem er hvað varðar menningarminjar og náttúruvernd á heimsminjaskrá UNESCO. Okkur hefur þótt tilhlýðilegt að fella tré sem hafa verið gróðursett í þjóðgarðinum af því að þau tengjast ekki uppruna hans eða því sem var á svæðinu í upphafi tíðar. Hins vegar hefur okkur líka þótt í lagi að hleypa inn í þjóðgarðinn atvinnustarfsemi sem á ekkert skylt við menningarminjar eða náttúruvernd. Þar er ég að vísa í köfunarfyrirtækin í Silfru. Ekki alls fyrir löngu skrifaði Jónas Haraldsson lögfræðingur ágæta grein í eitt af dagblöðunum þar sem hann ræddi akkúrat þetta verkefni, verktakafyrirtækin í Silfru sem bjóða upp á köfun í þeirri náttúruperlu sem Silfra er, og hvort það samræmdist því sem þjóðgarðurinn hvað varðar menningarminjar og náttúruvernd stendur fyrir þegar hann kemst á heimsminjaskrá UNESCO. Ég vil því beina því til þeirra þingmanna í allri vinsemd sem sitja í nefnd um þjóðgarðinn að þeir velti þessu fyrir sér og skoði hvort þetta fellur að þjóðgarði sem er á heimsminjaskrá hvað varðar menningarminjar og náttúruvernd og ef ekki, að gera þá breytingar þar á.


Efnisorð er vísa í ræðuna