145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tel fullt tilefni til þess að vekja athygli á niðurstöðum verkefnisstjórnar um rammaáætlun, sem birtast í tillögum verkefnisstjórnar sem eru nú til kynningar og farið er yfir á fundum úti um allt land. Það sem vekur mesta athygli mína í þessum niðurstöðum eru tillögur nefndarinnar um að færa virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun í nýtingarflokk.

Ég spurði formann verkefnisstjórnar, við kynningu á þessu, hvort einhverjar nýjar upplýsingar hefðu komið fram frá því að hv. atvinnuveganefnd hafði þetta til umfjöllunar. Hann sagði svo ekki vera. Þetta hefði ekkert verið skoðað frekar og þetta væri niðurstaða nefndarinnar. Þetta ætti að vekja okkur til umhugsunar um þá málsmeðferð sem fór fram hér á þinginu, eins ómálefnaleg og ódrengileg og hún var, þegar við vorum hér að ræða sérstaklega þessa þrjá virkjunarkosti. Afleiðingar þess fyrir þjóðarbúið blasa við, virðulegur forseti, að við skulum ekki geta haldið áfram þessu mikilvæga verkefni við uppbyggingu og eflingu byggða í landinu.

Eitt áhugaverðasta verkefni sem hefur komið í orkutengdum iðnaði, í vindinum, er sólarkísilverksmiðja á Grundartanga, mengunarlaus verksmiðja með mikla verðmætasköpun. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum hennar að þeir eru núna að athuga tilboð frá Noregi og jafnvel frá öðrum Norðurlöndum, vegna þess að Landsvirkjun getur ekki gert raforkusamning við þá verksmiðju upp á þau 40 megavött sem upp á vantar.

Ég tel ábyrgð þingmanna mikla í þessu máli og ekki síst ábyrgð þingmanna kjördæmisins. Ef menn leggjast á eitt hefur þingið möguleika á því að kippa þessu í liðinn fyrir vorið, hverfa frá þeirri ómálefnalegu og ódrengilegu málsmeðferð sem hér var í gangi og samþykkja í sátt þessa augljósu (Forseti hringir.) virkjunarkosti þannig að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki, og þeir sem vilja byggja upp á grundvelli þeirra, geti haldið áfram störfum sínum.


Efnisorð er vísa í ræðuna