145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er að verða vandræðalegt. Í gær tilkynnti forseti Íslands, m.a. með vísan til þess umróts og óvissu sem er í landinu, að hann gefi kost á sér til fjögurra ára setu enn, enda er auðvitað verkefni æðstu stjórnar ríkisins að eyða óvissu og skapa festu í samfélaginu.

Ríkisstjórnin hins vegar og þingmeirihlutinn gerir ekkert annað þessa dagana en að auka á óvissuna um stjórn landsins. Hún fæst enn ekki til þess að sýna þau mál sem hún telur nauðsynlegt að afgreiða í þinginu. Það er þess vegna algjör óvissa um hvaða mál eigi að gera að lögum á næstu mánuðum, ef ekki missirum.

En ekki bara það. Hún kveður heldur ekki skýrt upp úr um það hvenær kosningar eigi að vera í landinu sem til þessa hefur nú þótt grundvallaratriði um stjórnfestu í einu landi, að það liggi fyrir hversu lengi ríkisstjórn hyggist sitja. Tregða hennar við að gefa upp dagsetningu á haustinu gefur ástæðu til að ætla að menn á þeim bæ séu jafnvel að velta því fyrir sér að reyna að sitja áfram til vorsins. Eykur það enn á óvissu alla um landsstjórn.

Við það bætist síðan, virðulegur forseti, að ekki er alveg ljóst um það hver hefur forustu fyrir öðrum ríkisstjórnarflokknum í landinu.

Það verður að segja eins og er að ríkisstjórnin vanrækir í þessum efnum öllum höfuðskyldu sína, höfuðskyldu hverrar landsstjórnar að skapa festu, stöðugleika og vissu um landsstjórn. (Forseti hringir.)