145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þann 15. mars var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga mín og okkar talsmanna barna á þingi þess efnis að Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, yrði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Þetta var einstaklega ánægjulegur dagur og markar vonandi þáttaskil í fræðslu barna á réttindum þeirra og skyldum. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna þar sem sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Sáttmálinn hefur að geyma ýmis grundvallarréttindi og tryggir öllum börnum að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun. Sömuleiðis endurspeglar sáttmálinn nýja sýn á hlutverk og stöðu barna og tekur fram að öll börn eigi rétt á því að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Nú hefur UNICEF á Íslandi undir stjórn Hjördísar Evu Þórðardóttur unnið að og er að hrinda í framkvæmd afar spennandi verkefni sem þau kalla Réttindaskóla. Þetta er vinnulíkan sem hefur verið framkvæmt með frábærum árangri í Bretlandi, Kanada og fleiri löndum, en það leiðbeinir skólum og frístundaheimilum við að innleiða barnasáttmálann á einfaldan hátt. Öll börn og starfsfólk fá ítarlega fræðslu um réttindi barna og réttindin eru samofin öllu skólastarfi. Skólar sem vinna eftir þessu fá síðan viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi fyrir að vera réttindaskólar. Þetta tilraunaverkefni fer af stað hér á landi í haust með þremur skólum, tveimur frístundaheimilum og einni félagsmiðstöð.

Herra forseti. Þetta er vonandi aðeins byrjunin á enn frekari innleiðingu á inntaki barnasáttmálans í íslenskt samfélag og að innan fárra ára verði allt skólastarf samofið þessum mikilvægasta mannréttindasamningi mannkynssögunnar. Það samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt og virðir mannréttindi og setur málefni barna sinna í forgang lendir ekki í hruni.


Tengd mál