145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við erum hérna komin til þess að ræða viðbrögð stjórnvalda gagnvart skattaskjólum. Það verður að segjast eins og er að undanfarnar tvær, þrjár vikur hafa viðbrögð stjórnvalda einmitt ekki verið sérstaklega skýr. Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi. Einhvers staðar verða peningarnir að vera. Þetta minnir svolítið á Íslendingasögurnar eða biskupasögurnar gömlu. Það er ekki hægt að sjá að þjóðarleiðtogar okkar hafi komið skýrt og skilmerkilega fram eins og t.d. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sem sagði að bankar þyrftu að stunda samfélagslega ábyrga bankastarfsemi og það væri óboðlegt fyrir norska banka að vera í einhverju svona aflandsdóti.

Angela Merkel og François Hollande hafa bæði fagnað tilkomu Panama-skjalanna. Ekki hafa verið einhver sérstök viðbrögð frá fyrrverandi forsætisráðherra eða frá fjármálaráðherra um að það séu góðar fréttir að við séum komin með þetta upp á borð.

Þetta snýst ekki bara um skattsvik, að fólk sé að svíkja undan skatti. Við eigum ekki að taka þessa umræðu sem bara spurninguna um skattsvik eða ekki. Þetta snýst líka um siðferði og hvernig samfélag við viljum byggja og hvernig bankakerfið og hvernig samfélagið á að vera rekið.

Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra einblína um of á skattsvikahliðina á þessu öllu saman, þegar ég held að mun betra væri að tala meira um siðferðið sem liggur þarna að baki og það siðrof sem varð árin fyrir hrun sem varð til þess að fólk stofnaði bankareikninga á aflandseyjum trekk í trekk.

Að lokum legg ég einnig til að hæstv. ríkisstjórn ákveði kjördag sem fyrst.