145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum aðgerðir stjórnvalda gegn skattaskjólum á innlendum og erlendum vettvangi, enda er það svo að fyrir tilstuðlan skattaskjóla verður Ísland árlega af 30–50 milljörðum kr. að sögn sérfræðinga og miðað við þær upplýsingar sem ég hef undir höndum. Þann 29. mars, fimm dögum áður en Wintris-þáttur Kastljóss var sýndur, skrifaði hæstv. ráðherra fjármála og efnahagsmála eftirfarandi á Facebook-síðu sína, með leyfi forseta:

„Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“

Ég velti fyrir mér og varpa þeirri spurningu til hæstv. ráðherra fjármála hvers vegna síðan þá, í tæpar þrjár vikur, hafi engar sérstakar ákvarðanir eða yfirlýsingar um sértækar aðgerðir í ljósi mála komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra um hvernig hann ætlar sér að láta einskis ófreistað til að ná til þeirra sem fara á svig við lög og reglur eins og hann orðaði það. Til hvaða aðgerða ætlar fjármálaráðherra að grípa við að reisa við fjárhagslegt orðspor Íslands og sýna í verki að við sem samfélag höfum engan áhuga á að vera heimsmeistarar í skattundanskotum? Hvaða skilaboð ætlar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að senda umheiminum þegar kemur að því að sýna að hér verði tekið af festu á þeim málum sem komið hafa upp tengd viðskiptahagsmunum Íslendinga í skattaskjóli?

Er hæstv. fjármálaráðherra sá sem best er til þess fallinn í ljósi stöðu sinnar til að lýsa því yfir og sýna í verki að Ísland umberi með engu móti skattundanskot til skattaskjóla af þeirri stærðargráðu sem Panama-skjölin hafa leitt í ljós? Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að sýna festu í viðbrögðum og aðgerðum þegar kemur að (Forseti hringir.) því að stórefla baráttu gegn skattaskjólum er það nú.

Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að krefjast þess í ljósi yfirlýsinga sinna fyrir þremur vikum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að standa hér fyrir sértækum aðgerðum (Forseti hringir.) í ljósi mála?