145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Mér finnst áhugavert við þetta mál að það er ekki eins og við höfum ekki vitað af þessum raunveruleika, en þegar þúsundum skjala er lekið og það eru komin nöfn á eigendur þessara aflandsfélaga verður krafan um aðgerðir mjög sterk, aðkallandi og úti um allan heim. Ég verð að taka undir með sumum sem hafa talað hér, ég hef ekki haft á tilfinningunni að sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem sat hér fyrir tveimur vikum hafi mikinn áhuga á að uppræta skattsvik yfir höfuð. Ég kallaði eftir sérstakri umræðu um þetta mál. Ég sendi hæstv. atvinnuvegaráðherra fyrirspurn fyrir tveimur mánuðum, spurði einnar einfaldrar spurningar, þær voru reyndar tvær en þær voru einfaldar, um það hvað stjórnvöld hefðu gert til að sporna gegn kennitöluflakki eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Það eru tveir mánuðir síðan og ég hef ekki enn fengið svar. Hversu flókið er þetta? Þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi komið í umræður um skattsvik og annað hefur mér ekki fundist hann tala mjög afgerandi í þeim málum.

Ég veit að við erum hér að ræða aflandsfélögin, en ég vil setja þetta allt undir sama hatt. Það skiptir ekki máli með hvaða hætti skattsvikin eiga sér stað. Stjórnvöld verða alltaf að setja þá stefnu að skattsvik séu ekki í boði. Þau eru ólíðandi. Hér leggur fólk sitt til samfélagsins og við gerum það öll sem eitt. Ég var að skoða framlög til skattrannsóknarstjóra. Hann fékk 290 milljónir árið 2013, 300 milljónir 2014, svo lækkuðu framlögin árið 2015 niður í 297 milljónir og hækkuðu aftur í 322 milljónir 2016. Mér sýnist hækkunin frá árinu 2013 varla hanga í launaþróunarvísitölu þannig að fyrir mér hafa (Forseti hringir.) stjórnvöld ekki sett þá stefnu og markað þá sýn að skattsvik séu með öllu ólíðandi. Mér finnst kominn tími til aðgerða af hálfu stjórnvalda.