145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Uppljóstrun Panama-skjalanna hefur kallað á alheimsviðbrögð. Það besta í þessu er gildislæg viðhorfsbreyting og samstillt átak á alþjóðavísu til þess að deila upplýsingum og gera aflandsfélögum ómögulegt að fela eignarhald og skjóta sér undan réttmætum sköttum. Ég fagna viðbrögðunum og ég fagna jafnframt viðbrögðunum í samfélagi okkar og nauðsynlegri viðhorfsbreytingu.

Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa umræðu sem er hluti af því að fara í gegnum aðdragandann að aðgerðum sem verða að fylgja. Hæstv. ráðherra þakka ég greinargóða yfirferð yfir þau viðbrögð og aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa farið í á undanförnum árum gegn slíkri starfsemi. Það verður að halda því til haga; OECD-staðall, CFC-reglur, upplýsingaskiptasamningar, einstök aðgerð í gagnakaupum o.s.frv.

Í heimi þar sem frjálst flæði fjármagns er talið æskilegt er eðli máls að peningar leiti til hávaxtasvæða eða lágskattasvæða. Leynd, ógagnsæi og skattundanskot eiga hins vegar ekki að líðast. Verkefnið er að afhjúpa leyndina þannig að slík félög geti ekki komist upp með að skjóta sér undan sköttum.

Nú hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd tekið frumkvæði í þessari vinnu og meðal annars haldið tvo opna og mjög gagnlega fundi með ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra og annan með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Á þessum fundum og í framhaldinu hafa komið fram mjög gagnlegar ábendingar og tillögur sem nefndin getur unnið áfram og (Forseti hringir.) komið með aðgerðir til þess að styrkja löggjöf í baráttunni gegn slíkri starfsemi.