145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hæstv. ráðherra talaði um að skattsvikin væru aðalmálið, hins vegar þyrfti að vera heilbrigð samkeppni á markaði í þessum málum eins og öðrum. En er eitthvað heilbrigt, hæstv. ráðherra, við skattaskjól þar sem við horfum á leynd og ógagnsæi eins og hefur verið bent á og allt annað regluverk en við höfum sjálf kosið að smíða okkur hér ásamt öðrum þeim ríkjum sem við vinnum með?

Um þessa leynd og ógagnsæi vil ég segja að baráttan gegn skattaskjólum snýst líka um þá baráttu. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lýst vonbrigðum með viðbrögð, eða a.m.k. fyrstu viðbrögð, hv. þingmanna og hæstv. ráðherra núverandi stjórnarflokka þegar upp komst um Panama-skjölin.

Ég hefði kosið að fá viðbrögð á borð við þau sem við sáum t.d. hjá François Hollande sem ég vitnaði til áðan, sem sagði: Þetta er mikilvægt. Við þurfum að rannsaka það, því að tilvist skattaskjóla og aflandsfélaga er ógn við okkar kerfi, hvernig við byggjum okkar kerfi.

Það snýst ekki einungis um skattskil. Það snýst líka um regluverk og heilbrigða samkeppni, ekki óheilbrigða samkeppni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Ég spurði hann sérstaklega áðan um tillögu okkar um rannsókn á aflandsfélögum og skattaskjólum, að Alþingi lýsi pólitískum vilja sínum og ráðist í slíka rannsókn. Hér hafa menn rætt mikið um þau mál sem á eftir að klára fyrir kosningar. Ég held að þetta sé eitt af málunum sem við eigum að klára, herra forseti, og að Alþingi ætti að taka það í sínar hendur og segja: Það er pólitískur vilji til að taka á þessum málum. Hann snýst ekki einungis um skattsvik sem slík, hann snýst líka um tilvist þessara félaga, því að það er umræðan sem á sér stað úti í hinum stóra heimi.

Okkur Íslendingum var kippt inn í þá umræðu með því að skyndilega varð þetta mál svo fjarskalega áþreifanlegt í sölum þingsins og í samfélaginu. (Forseti hringir.)

En trúverðugleiki Alþingis (Forseti hringir.) snýst um að við sýnum að við getum og ráðum við það sem samfélag að takast á þegar svona alvarleg mál koma upp.