145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, loksins, fyrir árin 2015–2018. Samkvæmt lögum nr. 33/2008, um samgönguáætlun, skal innanríkisráðherra á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til 12 ára þar sem mörkuð er stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna.

Núgildandi samgönguáætlun tekur til áranna 2011–2022. Samhliða skal leggja fram verkefnaáætlun til fjögurra ára sem endurskoðast á tveggja ára fresti. Sú samgönguáætlun sem hér er kynnt er því verkefnaáætlun fyrir annað tímabil gildandi 12 ára samgönguáætlunar og fyrsta tímabil nýrrar stefnumótandi áætlunar fyrir tímabilið 2015–2026, sem verið er að leggja lokahönd á.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að áætlunin fái vandaða umfjöllun og afgreiðslu í þinginu, eins og ég er viss um að verði, þannig að við getum starfað eftir samþykktri samgönguáætlun. Samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 var lögð fram í tvígang á Alþingi en fékkst ekki afgreidd. Þá var tillaga um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 lögð fram á síðastliðnu vorþingi, en eins og kunnugt er náðist ekki að ljúka umfjöllun um hana fyrir þinglok.

Samgönguráð hafði yfirumsjón með gerð tillagna áætlunarinnar, en eins og þingheimur þekkir er gerð samgönguáætlunar í mjög föstum skorðum og það er í samræmi við stefnu þeirrar samgönguáætlunar sem í gildi er, tímabilið 2011–2022, áherslur ríkisstjórnar, ráðherra og aðrar áætlanir hins opinbera sem er mikilvægt að séu til grundvallar. Samgönguáætlun er eitt af þeim plöggum sem lifir kjörtímabil og er mjög langtímastefnumarkandi fyrir Ísland þegar kemur að uppbyggingu samgöngumannvirkja.

Þingsályktunartillaga sú sem hér er lögð fram er endurskoðuð með tilliti til fjáraukalaga 2015 og á grundvelli fjárlaga fyrir árið 2016. Eftir margra ára niðurskurð tímabilsins, sem við þekkjum öll, í kjölfar falls bankanna, sem kom niður á nýframkvæmdum og viðhaldi, varð markverður viðsnúningur í framlögum á síðasta ári. Árin 2011–2014 voru framlög til nýframkvæmda liðlega 7 milljarðar á hverju ári en fóru upp í tæpa 10 milljarða árið 2015. Viðbótarframlög sem samþykkt voru í fjáraukalögum 2015 námu samtals 3 milljörðum, þar af var 500 millj. kr. varið til brýnasta viðhalds á umferðarmestu vegum á höfuðborgarsvæðinu og hringvegi ásamt ástandsmati Vegagerðarinnar, en 1.300 millj. kr. til framkvæmda við mikilvægar ferðamannaleiðir; Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggi og Kaldadal. Þá var bætt við 1.139 millj. kr. við þjónustulið Vegagerðarinnar til að mæta auknum kostnaði við vetrarþjónustu í kjölfar snjóþungra vetra og aukinna hálkuvarna. Auk þess komu viðbætur við ríkisstyrkt innanlandsflug og 50 millj. kr. til hafna, t.d. vegna nauðsynlegrar dýpkunar á Höfn.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði einhvern veginn gripið það í mig, sem er eiginlega alveg undarlegt, að ég hefði lengri ræðutíma en raunin er, þannig að ég þarf að stytta verulega mál mitt með einhverjum ráðum. Vegna þess ætla ég að byrja á því að fara í það sem helst stendur upp úr og geyma aðra þætti og sjá svo hvað tímanum líður.

Fjárframlög til vegamála hafa aukist verulega. Í fjárlögum árið 2016 er gert ráð fyrir varanlegri 300 millj. kr. fjárveitingu til almenningssamgangna, strætó bæði innan höfuðborgarsvæðisins og úti á landi, til ferja og innanlandsflugs. Þá er ráðgert að bjóða út nýja Vestmannaeyjaferju sem allra fyrst á þessu ári. Ferjan verður veruleg samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga, eins og við þekkjum, og mun auka öryggi og þjónustu í siglingum til Vestmannaeyja.

Á árunum 2017 og 2018 verður samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar bætt 3 milljörðum við framlög hvors árs til vegagerðar frá fyrri tillögu. Því framlagi skal fyrst og fremst varið til að auka öryggi vegfarenda. Ráðstafað verður 1 milljarði kr. í viðhald, en víða er ástand vega varasamt og vaxandi umferð þungra hópferðabíla í ferðaþjónustu hefur aukið þar á. Þá er 1 milljarði kr. aukið til að flýta framkvæmdum við mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Krýsuvíkurveg og 350 millj. kr. fara til endurbóta á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaði sem anna ekki lengur árdegisumferð.

Mikilvægt er að byggja upp grunnnet stofnvega með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi og breikka umferðarmikla vegi og aðskilja akstursstefnur, fækka einbreiðum brúm á fjölförnum vegum og grafa jarðgöng í samræmi við jarðgangaáætlun. Þá verður að tryggja fullnægjandi viðhald svo ekki glatist þau verðmæti sem þegar eru bundin í vegum, brúm og jarðgöngum og öðrum mannvirkjum. Gert er ráð fyrir að á tímabilinu verði varið 26 milljörðum í viðhald og rúmum 44 milljörðum í framkvæmdir við stofn- og tengivegi, þar af fara nær 14 milljarðar til jarðgangagerðar.

Stærstu framkvæmdir á tímabilinu eru gerð Norðfjarðarganga sem verða opnuð haustið 2017, breikkun umferðarþyngsta hluta Suðurlandsvegar, Vestfjarðavegur frá Eiði í Kjálkafjörð um Gufudalssveit, Bjarnarfjarðarháls á Strandavegi, hringvegur um Hornafjarðarfljót og loks hringvegur í Berufjarðarbotni auk fjölda smærri verka.

Á höfuðborgarsvæðinu á að bæta umferðarflæði með smærri verkefnum til að útrýma flöskuhálsum, bæta forgang almenningssamgangna og auka umferðaröryggi, auk þeirra sem fyrr hafa verið nefnd vegna viðbótarframlags ríkisstjórnar.

Stefnt er að því að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist árið 2017 og taki við af Norðfjarðargöngum.

Þá er rannsóknum vegna Seyðisfjarðarganga haldið áfram á tímabilinu en framkvæmdum við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík, sem eru vistaðar í samgönguáætlun þótt forræðið sé á hendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, lýkur á tímabilinu.

Sundabraut kemur aftur inn í áætlun en leitað verður leiða við fjármögnun þeirrar framkvæmdar í samstarfi við einkaaðila. Vart þarf að taka fram hversu mikilvæg sú framkvæmd er fyrir samgöngukerfi höfuðborgarsvæðis og öryggi borgarbúa. Þrátt fyrir að ekki sé að finna fleiri stórframkvæmdir á þessu tímabili verður tímanum varið í að leita leiða til fjármögnunar slíkra verkefna í samstarfi við einkaaðila þannig að flýta megi stærri framkvæmdum sem miklu skipta fyrir öryggi og búsetugæði.

Samgöngur hafa mikil áhrif á umhverfið. Samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum okkar í loftslagsmálum þarf að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, ekki hvað síst frá samgöngum. Því er áfram stutt við framkvæmdir og verkefni sem stuðla að orkuskiptum, orkusparnaði og notkun innlendra orkugjafa í samgöngum, svo sem rafmagns. Í tillögunni eru áherslur á fjölbreytta ferðakosti og stutt við vistvænan samgöngumáta; almenningssamgöngur, göngu- og hjólreiðar, sem bæta einnig lýðheilsu og draga þannig úr kostnaði heilbrigðiskerfisins. Þá skiptir máli að stilla mismunandi ferðamátum ekki upp hverjum gegn öðrum heldur þarf að byggja á fjölbreytni í ferðavali og tryggja að þjóðvegakerfið okkar, sem og stofnbrautir í þéttbýli, geti sinnt þeirri umferð sem á því hvílir.

Á tímabilinu 2015–2018 verður áfram stutt við almenningssamgöngur um allt land sem tengja byggðir, tryggja aðgengi að opinberri þjónustu, auka öryggi og lækka samgöngukostnað heimila í samstarfi og samkvæmt samningum við landshlutasamtök sveitarfélaga.

Til almenningssamgangna er varið 11,5 milljörðum kr. Þar af renni 4 milljarðar til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, um 6,5 milljarðar til ferja og almenningssamgangna á landsbyggðinni og loks nema styrkir til áætlunarflugs innan lands 1.239 millj. kr.

Samkvæmt ferðavenjukönnun Vegagerðarinnar njóta fjölbreyttir ferðamátar vaxandi vinsælda í þéttbýli og velur um fjórðungur íbúa höfuðborgarsvæðisins að vera hjólandi, gangandi eða með strætó að sumri til. Því verður áfram stutt við gerð hjólreiða- og göngustíga, göngubrýr og undirgöng, til að bæta öryggi og styrkja heilsubætandi ferðamáta.

Kröfur um þjónustu í vegakerfinu aukast stöðugt og mun sú þróun verða áfram, ekki hvað síst með ört vaxandi fjölda erlendra ferðamanna. Góð þjónusta er forsenda greiðra og áreiðanlegra og öruggra samgangna.

Upplýsingamiðlun Vegagerðarinnar á skiltum, vef og um síma og snjalltæki er til fyrirmyndar og njóta allir landsmenn góðs af því að geta kannað veður og færð á vegum rafrænt í öflugu upplýsingakerfi. Vegna óhagstæðs veðurfars og vaxandi þjónustukrafna síðustu ár hefur safnast mikill halli í vetrarþjónustunni. Því er bætt við fjárveitingar til þjónustu þannig að hægt sé að mæta öðrum þjónustuþáttum, svo sem með því að mála miðlínur og vegkanta. Gert er ráð fyrir að 18 milljörðum kr. verði varið til þjónustu við vegakerfið á tímabilinu.

Markmið hafnahluta áætlunarinnar er að tryggja sem fyrr innviði fyrir sjávarútveg og samgöngur. Hafnargerð, sjóvarnir og rekstrarverkefni vegna siglinga hafa nú flust til Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir að um 6,2 milljörðum verði varið til siglingamála á tímabilinu. Þar af renni 4,3 milljarðar til hafnarframkvæmda og 464 millj. kr. til sjóvarna, m.a. til brýnna verkefna í Vík í Mýrdal. Til vaktstöðvar siglinga verður varið 900 millj. kr., en vaktstöðin er rekin í samstarfi við Landhelgisgæslu og Neyðarlínu. Til viðhalds og reksturs vita og leiðsögukerfa renna 450 milljónir. Að auki verður varið fé til rannsókna og þróunar þar sem auk hefðbundinna rannsókna verður unnið að verkefnum sem stuðla að betri hönnun og endingu mannvirkja og rannsókn á endurnýjanlegum orkugjöfum með það að markmiði að auka orkusparnað og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum.

Önnur verkefni sem snúa meðal annars að öryggis- og eftirlitsmálum, þar með talinn Slysavarnaskóli sjómanna, hafa nú flust til Samgöngustofu.

Gert er ráð fyrir að á tímabilinu verði varið 1,3 milljörðum til framkvæmda við Landeyjahöfn, m.a. til rannsókna og framkvæmda sem eiga að draga úr sandburði til frambúðar, árlegrar dýpkunar og uppgræðslu við hafnarsvæðið. Þá er, eins og ég vék að áðan, gert ráð fyrir að ný Vestmannaeyjaferja verði boðin út sem allra fyrst.

Flugmálahluti samgönguáætlunarinnar fjallar um áherslu, verkefni, rekstur og framkvæmdir, auk flugleiðsögu sem Isavia ohf. annast samkvæmt þjónustusamningi við ríkið sem nú er í endurskoðun, enda rann hann út í lok árs árið 2015.

Keflavíkurflugvöllur er að sjálfsögðu megingátt landsins og heyrir undir evrópska ríkisgátt og samkeppnisreglur. Flugvöllurinn er orðinn sjálfbær og standa þjónustugjöld undir rekstri flugvallar og flugstöðvar að undanskilinni þjónustu við ríkisflug og hluta af vopnaleit. Farþegum sem fara um völlinn hefur fjölgað hratt. Er gert ráð fyrir rúmlega 6,6 milljónum farþega á þessu ári. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun farþega sem tryggir rekstrargrundvöll vallarins, en gerir líka kröfu um gríðarlega uppbyggingu sem Isavia vinnur að. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að kostnaður vegna uppbyggingarinnar hlaupi á tugum milljarða og gangi spár eftir muni fjölgun flugvéla og farþega um völlinn standa undir fjármagnskostnaði.

Í innanlandskerfinu eru allir flugvellir og lendingarstaðir sem Isavia rekur samkvæmt þjónustusamningi. Samtals nema fjárveitingar til verkefna sem fyrirtækið sinnir samkvæmt þjónustusamningi 8,5 milljörðum á tímabilinu. Áætlunarflug er til 11 áfangastaða, þar af njóta sex flugleiðir beinna ríkisstyrkja en hinar eru reknar á markaðslegum forsendum. Allt viðhald, framkvæmdir og 2/3 hlutar af rekstrarkostnaði í innanlandskerfinu er fjármagnað með framlögum úr ríkissjóði samkvæmt þjónustusamningi og vitað er að veruleg fjárfestingarþörf er uppi í flughluta áætlunarinnar. Aðrar tekjur, svo sem lendingargjöld og farþegagjöld, standa undir því sem upp á vantar eða 1/3 af rekstrarkostnaði. Af þessum 8,5 milljörðum fara ríflega 3/4 í rekstur en fjórðungur til viðhalds og framkvæmda, sem er auðvitað ekki viðunandi, en langstærstur hluti þess fer til viðhalds flugbrauta og búnaðar á alþjóðaflugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Stöðug fjölgun er á flugvélum sem fara um íslenska flugleiðsögusvæðið. Um 145 þús. flugvélar fóru um svæðið árið 2015 og fjölgaði um 11% milli ára. Flugleiðsögusvæðið er afar stórt en Isavia stýrir einnig flugumferð yfir Grænlandi samkvæmt samningi þar um.

Samgöngustofa hefur orðið vör við vaxandi ferðaþjónustu og hefur hún haft mikil áhrif á starfsemi hennar, en hún annast skráningu á og eftirlit með öllum farartækjum sem nýtt eru fyrir ferðamenn. Miklar alþjóðlegar kröfur eru gerðar til flugrekstrar, flugverndar og flugöryggis, þar með talið eftirlit með flugtengdum rekstri og starfsleyfum einstaklinga, enda er mikið í húfi. Nú fljúga um 25 flugfélög til Íslands að sumri til og níu allt árið um kring. Eftirlit með innlendum og erlendum aðilum í flugi hefur því verið vaxandi að umfangi, þar með talið skyndiúttektir á erlendum flugvélum sem hafa það að markmiði að tryggja öryggi.

Markmið öryggisáætlana er að auka öryggi í samgöngum og fækka slysum. Áhersla er á að skrá atvik og slys til að læra megi og fyrirbyggja endurtekin slys og óhöpp. Í umferðaröryggisáætlun eru sett fram markmið um að auka meðvitund ökumanna um hættur í umferðinni, fækka slysum og draga úr fjölda alvarlega slasaðra og látinna. Markmiðið er að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þús. íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum og verulega dragi úr þeim fjölda sem slasast alvarlega. Það er mikið áhyggjuefni hversu mörgum lífum við höfum tapað í umferðinni á síðustu missirum. Við getum aldrei sætt okkur við það.

Umferðaröryggisáætlun er ekki fjármögnuð sérstaklega á þessu ári en Vegagerðin, Samgöngustofa og ríkislögreglustjóri munu engu að síður verja 430 millj. kr. til margvíslegra aðgerða á sviði umferðaröryggis á árinu með breyttri forgangsröðun verkefna, af því að það er óumflýjanlegt og grundvallaratriði af minni hálfu að peningar séu til reiðu í umferðaröryggismál.

Virðulegi forseti. Það er farið að þrengja að með tímann og ræðan er allt of löng, en við skulum sjá.

Hjá samgöngustofnunum er einnig unnið að rannsóknum og ýmsum þáttum samgangna, svo sem varðandi umhverfismál og öryggi, en 600 millj. kr. renna til rannsókna á tímabilinu sem margar hverjar skila góðum arði í nýjungum og nýtingu, auk þess sem niðurstöður renna oft betri stoðum undir stefnumótun og ákvarðanatöku. Það er afar brýnt að við höldum áfram að veita fé til rannsókna og höldum líka áfram að horfa á samgöngumál langt fram í tímann.

Flestum almennum samgönguverkefnum sem skilgreind voru í samgönguáætlun 2011–2022 er nú lokið svo og færslu almenningssamgangna til landshlutasamtaka sveitarfélaga og gerð félagshagfræðilegrar greiningar á mikilvægi innanlandsflugs. Ný verkefni hafa og eru að líta dagsins ljós. Meðal annars er unnið að greiningu á vinnusóknarsvæðum og verkefnum sem bæta nýtingu umferðarmannvirkja. Markmið þeirra flestra er að rannsaka þætti í uppbyggingu og viðhaldi og notkun mannvirkja en ekki hvað síst að afla haldgóðra gagna um upplýsingar sem leggja grunn að góðri stefnu í samgöngumálum, sem er auðvitað það sem við erum að stefna að.

Virðulegi forseti. Ég hef hlaupið hér á þeim atriðum sem eru í þessari tillögu (Forseti hringir.) að samgönguáætlun. Ég legg áherslu áð að þingið fái málið loksins, eins og ég segi, til meðferðar og ég hlakka til að eiga samskipti við þingið vegna þess og óska Alþingi góðs í því að fjalla um þetta mál.