145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hæstv. ráðherra: Loksins er samgönguáætlun komin fram. Og ábyggilega eftir erfiða fæðingu í stjórnarflokkunum. Við erum viss um að nú séu uppgangstímar í þjóðfélaginu og því veldur þessi samgönguáætlun mér miklum vonbrigðum, vegna þess hve lítið er í henni. Hún er mjög samhljóða þeirri áætlun sem lögð var fram á síðasta þingi. Þá tók meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar sig til og breytti áætluninni töluvert og jók við framkvæmdir og fjárútlát vegna þess að ekki var vanþörf á. Þá gerðist það sem maður vonaði að mundi ekki gerast. Stjórnarherrarnir, væntanlega leiðtogar ríkisstjórnarinnar, tóku sig til og sögðu: Ekki meir, ekki meir. Áætlunina dagaði uppi vegna þess að fulltrúar meiri hlutans í nefndinni viðurkenndu að það væri ekki neitt í þeirri áætlun og hún væri ekki ásættanleg miðað við þarfir; þeir bættu við, en þá dagaði hana uppi.

Fyrri spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Er hætta á að eitthvað svipað geti gerst nú? Seinni spurningin er kannski mikilvægari. Ég þekki það frá fyrri tíð að þegar maður leggur fram samgönguáætlun getur maður orðið fyrir vonbrigðum, en maður getur líka verið stoltur og ánægður með áætlanir. Ég var það með mínar áætlanir á erfiðleikatímum. Seinni spurning mín til hæstv. ráðherra er: Er hæstv. ráðherra stolt og ánægð með þá samgönguáætlun sem hún leggur hér fram?