145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:15]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í kjördæmaumræðu um það hvar þörfin sé brýnust. Við vitum að þörfin er brýn um allt land. En hæstv. ráðherra talaði um forgangsröðun og sagði að ríkisstjórnin hefði sett peninga í heilbrigðismálin, að það hefði verið forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég vil minna á að ríkisstjórnin forgangsraðaði þannig að hún setti 80 milljarða í skuldaniðurfellingu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Var það að hennar mati góð forgangsröðun eftir mikil niðurskurðarár, þegar gríðarleg þörf var á uppbyggingu innviða — líka í ljósi ferðamanna sem hingað hafa komið í áður óþekktum mæli, þetta snýst ekki lengur um okkur í kjördæmunum sem þurfum að keyra á vegunum, heldur líka um ferðamennina — að setja 80 þús. milljónir í skuldaniðurfellingu sem dreifðist þannig að fullt af fólki fékk peninga sem það hafði ekkert með að gera? Er það forgangsröðun sem hæstv. ráðherra er ánægð með? Mundi hún ekki vilja hafa einhverja milljarða til að setja í uppbyggingu á vegum, taka hættulegustu vegina, t.d. einbreiðu brýrnar og annað sem er aðkallandi?

Ég sé líka, á því fé sem veitt hefur verið í samgöngumálin undanfarin átta ár, að við erum ekki að taka nein stökk upp á við. Þetta eru hóflegar upphæðir og hækkunin er ekki mikil á milli ára. Ég hefði því haldið að forgangsröðunin ætti að vera öðruvísi. Hún hefði átt að vera í þágu uppbyggingar innviða en ekki tilraunakenndar útgreiðslur til fólks með eina tegund af lánum eins og raunin varð. Ég upplifi þetta sem kosningaloforð Framsóknarflokksins í boði Sjálfstæðisflokksins. Þannig upplifði ég þessa skuldaniðurfellingu.