145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg rétt að við erum sammála um að þetta er brýnt og vildum örugglega öll sjá meiri peninga í málaflokkinn. Samkvæmt þessu á ekki, ef ég skil rétt, að hækka framlagið á milli 2017 og 2018, eða hvað? (Innanrrh.: Jú.) Ekki svo mikið. (Innanrrh.: Um 3 milljarða.) Milli 2017 og 2018. Það eru tæpir 24 milljarðar 2016, tæpir 29 milljarðar og svo aftur tæpir 29 milljarðar. Menn eru að stíga varlega til jarðar í þessum efnum og of varlega gætum við sagt.

Eins og hæstv. ráðherra sagði vantar auðvitað fé í ýmsa málaflokka, heilbrigðismálin, menntamálin og þar fram eftir götunum. Annað sem við höfum verið að glíma við er líka vetrarþjónusta, hvernig hún hefur farið fram úr áætlun og hvernig við þurfum að bregðast við þegar koma snjóþungir (Forseti hringir.) vetur. Ég vil bara ítreka það sem ráðherra sagði: Þetta snýst um forgangsröðun. Og forgangsröðunin var að setja 80 milljarða í skuldaniðurfellingu til heimila. Það er bara þannig.