145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri oft í kringum þessa umræðu uppnefnt það hlutverk þingmanna að tala fyrir hagsmunum síns fólks, og það kallað kjördæmapot. Mér þykir það uppnefni og rangt orð yfir það sem er að mínu algjörlega sjálfsagt að gera, kerfið er hugsað til þess að tryggja að þingmenn gæti hagsmuna umbjóðenda sinna. Hægt væri að halda langa ræðu um það í sjálfu sér og mismunandi útfærslur á því.

Eitt af því sem ég tók eftir, vegna þess að faðir minn á heima á Siglufirði, er hvað Héðinsfjarðargöng hafa breytt lífinu á Siglufirði til hins betra. Siglufjörður er eftir því sem ég fæ best séð í miklum blóma núna og sömuleiðis önnur sveitarfélög þar í kring geri ég ráð fyrir. Mér þykir svolítið mikilvægt að halda því til haga.

Ég er þingmaður Reykv. n. og hv. þm. Kristján L. Möller er þingmaður Norðaust., þess háttvirta kjördæmis. Því hef ég áhuga á öllum hugmyndum um hvernig göng geta breytt mannlífinu til hins betra og sér í lagi hvernig hv. þingmaður álítur að haga beri forgangsröðun í þeim efnum. Vegna þess að þótt göng séu almennt góð að mínu mati þarf greining alltaf að eiga sér stað, sem ég veit að hv. þingmanni er mjög umhugað um. En ég hefði áhuga á að vita meira úr kjördæmi hv. þingmanns um hvar hann mundi sjá nauðsynlegast eða best að koma fyrir göngum, hvar slík tæki gætu hjálpað til við að aðstoða eða jafnvel bjarga sveitarfélögum. Allt sem hv. þingmaður getur sagt mér í þeim efnum mun ég hlusta á mjög vandlega.