145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:00]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu vill maður alltaf sjá meira fjármagn í verkefni en eins og ég sagði jafnframt er ég ánægð með þau skref sem við sjáum. Við sjáum að við erum að fara í stór verkefni sem hefur verið beðið eftir í fjölda ára og hefur ekki verið farið í. Við sjáum skýr merki um að fara eigi í þau verkefni og ég hef enga trú á öðru en að verkefnin verði kláruð. Þessi áætlun nær til 2018 og það er fjármagn í henni til 2018 til þeirra verkefna. Ég hef því fulla trú á því að verkefnin verði kláruð og fjármagn sett í þau.

Ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd til góðra verka og trúi því að allir þeir hv. þingmenn sem þar vinna leggist á eitt við að gera nauðsynlegar umbætur á þessari tillögu svo að hún megi verða sem allra best. Við sjáum hvernig málið mun skila sér inn í síðari umr. í þingsal.

Ég er ánægð að sjá þau skref sem stigin eru hér og ég hef heyrt ánægjuraddir víða með að þessi verkefni séu á dagskrá. Ég bind miklar vonir við að þau verði að veruleika og verði kláruð.