145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla líka að taka þátt í þessari stuttu umræðu sem er um samgönguáætlun hverju sinni. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna svona rosalega mikilvægt mál fær í raun svo skamman tíma til umræðu og lagt fram í þessu formi, af hverju það sé ekki bara hefðbundið að lengri umræða sé um samgönguáætlun eins og aðrar stórar áætlanir.

En ég verð að segja það, eins og hér hefur komið fram, að við sem tilheyrum minni hlutanum á þingi erum ekki sátt við þessa áætlun og finnst hún frekar rýr og lítið betri, held ég, en sú sem lögð var fram á síðasta vori. Ég hefði viljað, eins og ég sagði við ráðherra áðan, sjá það gerast að lækkandi olíuverð og annað gæti komið hér inn til þess að hækka meðal annars mörkuðu tekjurnar fyrir Vegagerðina. Hæstv. ráðherra svaraði ekki nema hluta af spurningunni minni í seinna skiptið enda lítill tími, en staðan er auðvitað sú að við erum ekki farin að fullu að vinna eftir nýjum lögum um opinber fjármál, þau taka gildi í tilteknum áföngum og einhverjar markaðar tekjur hanga inni og aðrar ekki. Vegagerðin hefur verið með það sem kallast neikvætt bundið eigið fé. Nú man ég ekki nákvæmlega hvað það er mikið núna, en það er spurning hvort Vegagerðin þarf að greiða það með lækkandi framlögum eða hvort tekin verði ákvörðun í ríkisstjórn um að það verði fellt niður. Þetta skiptir máli.

Ráðherrann nefndi sjálfur meðal annars vetrarþjónustuna sem við vitum að bara vex og vex og er gjarnan meira tengd landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Mér þótti ágætt að það kom fram af því að ég held að það séu oftast landsbyggðarþingmenn sem kvarta yfir snjómokstrinum, þá er eins og það fari svo gríðarlega miklir fjármunir í hann sérstaklega. Vissulega fara miklir peningar í snjómokstur en það er lágmarkskrafa að vera með vegina opna nokkuð reglubundið þannig að fólk geti sótt þjónustu vegna þess að þróunin hefur verið sú að hún hefur verið gerð mjög miðlæg í ansi hreint mörgu, hvort sem það er heilbrigðisþjónusta eða annað. Það eykur kröfur um að samgöngukerfi okkar sé vel rekið.

Eins og ég sagði áðan þá er það þetta sem sveitarstjórnarfólkið hefur mikið verið að tala um við okkur þegar við höfum farið til þeirra í kjördæmavikum og þegar við höfum fengið það á fund fjárlaganefndar og annað, þá hefur aðalmálið verið að fá þessa hluti í lag. Eins og ég sagði þá er það helst þrennt, það er heilbrigðiskerfið, það eru samgöngurnar og það er ljósleiðarinn eða hvað annað sem gæti komið í stað hans til að bjarga þeim tengingum. Það skilur maður alveg því að fólk sem býr í dreifðum byggðum upplifir á eigin skinni hvað það skiptir miklu máli að hafa þessa hluti í lagi og staðan er allt önnur en t.d. á stórhöfuðborgarsvæðinu. Svo einfalt er það nú.

En mig langaði aðeins til þess að ræða betur, svo ég snúi aftur í mörkuðu tekjurnar, að þær hafa ekki hækkað í takt við verðlag. Það sem Vegagerðin hefur verið að ræða við okkur í fjárlaganefnd er að allir samningar hennar eru bundnir verðlagsuppfærslum. Það er auðvitað bagalegt þegar annar aðilinn er bundinn af því að greiða með slíkum hætti en fær það kannski ekki bætt á móti, sem þýðir auðvitað að hann þarf að draga úr framkvæmdum einhvers staðar annars staðar.

Mig langaði líka til að koma inn á flugið en talað er um það hér að framlög til innanlandsflugs hækki en það er þá aðallega til að mæta uppsöfnuðum halla og þjónustan breytist voðalega lítið. Nú hefur umræðan um innanlandsflug verið töluvert mikil og hér var stofnaður hópur sem taldi að í samgönguáætlun væri ekki, hvorki síðast né núna, verið að mæta þeim kröfum, eða hvað á ég að segja, tillögum sem þar voru lagðar fram til þess að bæta aðstöðu fólks um allt land. Við höfum heyrt sláandi tölur hjá fólki, sérstaklega af Austfjörðum mundi ég nú segja og hugsanlega af Vestfjörðum. Fyrst og fremst hafa Austfirðingar verið duglegir að láta í sér heyra varðandi það að þetta hamlar því að fólk geti nýtt sér hluta af þeirri miðlægu þjónustu sem ég var að tala um áðan og svo bara að rækta samskipti og annað slíkt vegna þess að flugið er svo brjálæðislega dýrt. Auðvitað á flugið að vera hluti af almenningssamgöngukerfinu bæði í verði og aðstöðu.

Ég verð eins og fleiri að lýsa vonbrigðum mínum með að verkefni skuli ekki vera kláruð. Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir þegar lítið fé er veitt til samgönguáætlunar og uppsafnaður vandi er svona gríðarlega mikill. Það er vert að muna að það kostar líka mikla peninga að fresta svo rosalega miklu eins og búið er að gera, í framkvæmdum og viðhaldi og öllu slíku. Áherslan hefur verið á að greiða niður ríkisskuldir sem er ágætt, mesta áherslan hefur kannski verið lögð á það, en það er spurning hvort það hefði mátt gera eitthvað hægar og nýta féð í innviðina vegna þess að það getur sparað peninga til lengdar að fresta ekki um of ákveðnum framkvæmdum.

Hæstv. ráðherra talaði um að horfa 50 ár fram í tímann og það er akkúrat það sem ég held að við þurfum að gera, að horfa langt fram í tímann. Núna stöndum við frammi fyrir að hluta til ánægjulegum staðreyndum sem er auðvitað ferðamannaaukningin en á móti erum við með innviði sem anna þessum fjölda engan veginn og allir litlu bílarnir og allar stóru rúturnar og allt sem keyrir hér um er fljótt að skipta máli.

Svo er það aðstöðumunur svæðanna. Dettifossvegur fær smotterí núna og eftir verður ákveðinn kafli. Þetta er eitt af því sem ég setti gult við þegar ég var að fletta í gegnum áætlunina. Það er einhvern veginn þannig að við klárum ekkert. Við setjum alltaf eitthvert smotterí hér og þar af því að við viljum friða sem flesta. Líklegast er hugsunin svolítið þannig í staðinn fyrir að reyna að taka stærri skref eða setja meiri fjármuni í tiltekin verkefni og ljúka þeim á skemmri tíma. En það er auðvitað bara pólitísk ákvörðun út af fyrir sig að gera það, við stöndum frammi fyrir því að taka ákvörðun um slíkt.

Það er mikill þrýstingur núna, af því að ég hef tekið undir það sem hér hefur verið rætt um Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng. Ég er afskaplega ánægð með það hvernig okkur hefur tekist að halda á spöðunum við jarðgangagerð á Íslandi hin síðari ár, við höfum haft það þannig að ein göng taka við af öðrum. En það er líka mikilvægt að ekki sé keyrt beint út á einhvern gamlan malarveg úr Dýrafjarðargöngum í framhaldi af því að gera þau flott og fín. Það er eitt af því sem við þurfum að gæta að.

Nú er ég búin að gleyma hverju ég ætlaði að enda á, það er nú eins og það er. En í sjálfu sér held ég að ég hafi komið flestu að sem mig langaði að segja í þessu fyrsta slotti á meðan maður er að horfa yfir stóru myndina.

Jú, mig langaði í restina að segja að það er mikill þrýstingur, það var það sem ég var að byrja að segja áðan, og ég las það framan á Morgunblaðinu síðast að það hefði verið komið að máli við einhverja í fjárlaganefnd varðandi útboð á Herjólfi. Ég sé að í þessari áætlun hefur verið ákveðið að leggja ekki áherslu á það núna og ég hef aðeins áhyggjur af því að það eigi að reyna að þrýsta því í gegn með einhverjum baktjaldaleiðum. Ég er ekki sátt við þá áætlun, að slíkt sé gert, og spyr þá ráðherra að því þegar hún tekur hér saman umræðuna á eftir hvort hún mundi styðja við það ef það kæmi öðruvísi fram (Forseti hringir.) eða hjá einhverri nefnd eða eitthvað slíkt.