145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og sérstaklega fyrir að vekja athygli á þingmáli um áningarstaði Vegagerðarinnar. Ég held að það sé okkur brýning til þess að taka það mál til skoðunar í nefnd þar sem það er statt núna. Ég held að við ættum að skoða það því að það er gott mál og ætti að geta verið þverpólitískt mál.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari um áherslu á að útrýma einbreiðum brúm sem eru sérstakt áhyggjuefni en mér skilst að á þjóðvegum landsins sé meira en helmingur allra brúa einbreiður og meðalaldur þeirra brúa um 50 ár. Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta. Þarna er um að ræða mjög mikilvæg umferðaröryggissjónarmið og ekki síst þegar við erum komin með aukinn fjölda af fólki á þjóðvegina sem kann hreinlega ekki á þessi fyrirbæri, enda eru slíkar aðstæður mjög annarlegar fyrir fólk sem er kannski vant hraðbrautum í öðrum samfélögum.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann um umhverfismálin. Það er afar lítill kafli hér, sem mér telst til að séu einar átta línur á bls. 70 í greinargerð með áætluninni, sem fjallar um umhverfismál. Eitt af okkar stærstu sóknarfærum í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er einmitt í samgöngum og það kemur aðeins inn á það sem hv. þingmaður sagði um rafbíla og vistspor og losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að við eigum, þó að það sé ekki gert að þessu sinni, að freista þess í náinni og fjarlægri framtíð að meta slíkar áætlanir eins og samgönguáætlun með hliðsjón af Parísarsamkomulaginu og markmiðum okkar varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.