145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, vissulega nokkuð sérkennilegt á árinu 2016. Eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól skipta samgöngur miklu máli og hafa áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið en jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Bættar samgöngur eru því áhugamál flestra Íslendinga og örugglega allra þingmanna. Við hefðum því öll viljað sjá meira fjármagni varið í samgöngur nú eins og ávallt áður, en ég fagna sérstaklega þeirri 3 milljarða viðbót sem gert er ráð fyrir á áætluninni fyrir árin 2017 og 2018, ef ég skil rétt.

Ég fagna því líka að hér skuli lögð fram áætlun og legg jafnframt mikla áherslu á að hún verði afgreidd á þessu þingi. Það er með öllu óviðunandi að láta lengri tíma líða án þess að fyrir liggi áætlun samþykkt af Alþingi um ráðstöfun þess fjármagns sem ætlað er í uppbyggingu samgöngumannvirkja.

Það er staðreynd að fyrir mörg byggðarlög ráða samgöngur miklu um möguleika til uppbyggingar og þróunar. Þegar ekki liggur fyrir áætlun veldur það óhjákvæmilega áhyggjum, óöryggi og óvissu íbúa þessara byggðarlaga. Óvissa um hvað er fram undan í samgöngumálum getur oft og tíðum leitt til óþarfaóeiningar í samfélaginu. Skýr stefna í samgöngumálum til lengri tíma er mikilvægur liður í sátt og sameiginlegri framtíðarsýn. Ég ætla því að ítreka mikilvægi þess að Alþingi afgreiði samgönguáætlun á þessu þingi og tek undir það með hæstv. innanríkisráðherra að mikilvægt sé að þingsályktunartillagan sé í samræmi við fjárlög og raunveruleikann.

Ég get tekið undir margt af því sem þegar hefur komið fram í þessari umræðu og hef fullan skilning á nauðsyn fjölbreyttra framkvæmda, en mun aðeins tæpa á nokkrum atriðum hér. Ég gleðst mjög yfir þeim stóru jarðgangaframkvæmdum sem nú standa yfir í Vaðlaheiðargöngum og við Norðfjarðargöng, sem nú sér fyrir endann á; þau verða væntanlega tekin í notkun sumarið eða haustið 2017. Að sama skapi er ég ánægð með að Dýrafjarðargöng eru í áætluninni, ásamt áframhaldandi fjármagni til rannsókna við Seyðisfjarðargöng, en vil beina því sérstaklega til umhverfis- og samgöngunefndar að fara vandlega yfir hversu mikið fjármagn þarf til rannsókna vegna Seyðisfjarðarganga þannig að tryggt verði að sem fyrst liggi fyrir nauðsynlegar upplýsingar til að mögulegt sé að taka ákvarðanir varðandi framhald undirbúnings næstu gangaframkvæmda á Austurlandi.

Við sjáum loks fram á að lokið verði við að malbika þjóðveg 1 þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdir í Berufjarðarbotni fari fram á árunum 2017 og 2018. Er sérstök ástæða til að fagna því en skipulag liggur fyrir vegna þeirra framkvæmda. Síðan er stefnt að því að framkvæmdir fari fram í Skriðdal til að tengja frá Skriðuvatni upp að Öxi á árinu 2018.

Ég vil jafnframt, þar sem þarna næst áfangi með hringveginn, vekja athygli á allt of mörgum kílómetrum af ómalbikuðum stofnvegum á Héraði, í Þingeyjarsýslum og í Eyjafirði, svo að ekki sé talað um aðra vegi fyrir utan stofnvegina. Eins og hv. þm. Kristján Möller kom inn á í dag eru ekki orðnir margir þéttbýlisstaðir sem ekki hafa þokkalega greiðar samgöngur, en einn af þeim sem eftir er er Borgarfjörður eystri. Þangað er ekki hægt að fara. Hann er einn af örfáum þéttbýlisstöðum sem ekki er hægt að sækja heim án þess að fara um malarveg. Það eru kannski mín stærstu vonbrigði í þessari samgönguáætlun að ekki eigi að hefjast handa við lagfæringu á þeim vegi fyrr en árið 2018. Þetta er vegur sem bæði þjónar mörgum ferðamönnum og íbúum sem þar búa. Fyrst rætt er um malarvegi þá eru enn töluvert margir sveitabæir víða um land sem standa við býsna umferðarþunga malarvegi og eru í stöðugum rykmekki allt sumarið. Þetta er eitt af því sem mætti bæta úr án allt of mikils tilkostnaðar.

Aðeins að einbreiðu brúnum. Ef ég fer sem leið liggur heim til mín þá fer ég um tæplega 40 einbreiðar brýr á þeirri leið, á þjóðvegi 1 og Suðurfjarðarvegi. Það er mikilvægt að gera átak til að fækka þessum brúm. Það mætti hugsanlega byrja með því að horfa á þær stystu, ég vil kannski beina því til umhverfis- og samgöngunefndar að skoða það; það eru líka oft þessar stystu brýr sem eru hvað hættulegastar því að það ber mjög lítið á þeim. Það ber lítið á vatnsföllunum sem þær liggja yfir og lítið á brúnum sjálfum. Þær eru einar 10 eða 15 af þessum hátt í 40 brúm.

Það er mikilvægt að byggja endurbætur á vegakerfinu á öryggissjónarmiðum, en við það þarf að horfa bæði á slysatíðni á einstöku stöðum í vegakerfinu og líka á tíðni slysa miðað við umferðarþunga. Því langar mig að nefna sérstaklega hér veg sem reyndar hefur verið unnið í hægt og sígandi á síðustu árum, en það er Suðurfjarðarvegur í sunnanverðum Fáskrúðsfirði; þar eru enn eftir kaflar, ekki svo langir, þar sem verulega væri hægt að bæta öryggið. Ég vil jafnframt fagna því að sérstaklega er gert ráð fyrir því að bæta úr öryggi á vegum í kringum Akureyri.

Almenningssamgöngur eru verkefni sem hefur verið í mikilli þróun á síðustu árum. Þar tel ég mikilvægt að horfa á almenningssamgöngur í heild, ferjur, flug og strætó eða fólksflutningabíla. Það er enn svo að ekki eru almenningssamgöngur hringinn um landið, það er eitt af því sem er mikilvægt að bæta úr. Kannski kemur það samhliða því að þjóðvegurinn verður malbikaður í Berufjarðarbotni, að þá takist líka að fylla upp í gatið sem þar er í almenningssamgöngunum.

Ég er mjög ánægð með að bætt sé í fjármagn til viðhalds. Við erum með vegakerfi sem hefur verið að vaxa að umfangi og umferðarþungi vex mjög hratt. Á suðaustursvæðinu hafa tölurnar til dæmis farið mjög hratt upp á við bara á þessu og síðasta ári. Vegagerðin hefur skilgreint þjónustuþörfina út frá umferðarþunga og vaxandi notkun. Það þýðir að við verðum að tryggja fjármagn til þess að standa undir þjónustuviðmiðum í samræmi við notkun kerfisins og þarfir íbúanna til að sækja þá opinberu þjónustu sem við höfum skipulagt víða miðað við að samgöngur séu alltaf til staðar.

Aðrir þingmenn hér á undan mér hafa rætt sérstaklega um norðausturhornið. Ég held að fullt tilefni væri til að taka það fyrir sem sérstakt verkefni. Ef við erum að tala um norðausturhornið frá Húsavík til Hornafjarðar, norðan við þjóðveg 1, þá erum við að tala um 8–10% af heildarstærð landsins. Þetta er svæði sem er mjög illa tengt samgöngum en býður kannski upp á mjög ólíka möguleika í ferðaþjónustu en á öðrum svæðum; þarna er ferðaþjónustan komin svo skammt á veg og því tækifæri til að skipuleggja hana á annan hátt en þar sem ferðaþjónustu hefur verið sinnt lengur.

Ég hefði eins og aðrir hér viljað koma inn á margt fleira í þessari ræðu. Ég átta mig til dæmis ekki alveg á þeirri umræðu sem hefur farið fram um markaðar tekjur, en ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki það fyrir í umfjöllun sinni um málið hvort tækifæri séu til að auka tekjur sem sérstaklega eru ætlaðar til samgangna.