145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég ítreka það svar. Ég væri tilbúin til þess, en ég vonast samt sem áður eftir því að jákvæðar breytingar verði á henni frá mínu sjónarhorni. Það er ekkert víst að það séu þær sömu breytingar og eru jákvæðar frá sjónarhóli annarra.

Mig langar að nota tækifærið fyrst ég hef smátíma núna og koma inn á tækifæri til hringtenginga. Það er eitt af því sem horfa þarf á í samhengi við uppbyggingu á ferðaþjónustu. Þar höfum til dæmis nokkur tækifæri á hinu umtalaða norðausturhorni, sem eru hátt í 10% alls landsins, þar sem eru Dettifoss og Ásbyrgi, tækifærin sem felast í því að nýta Dettifossveg til að mynda hringtengingu. En það er líka leiðin út fyrir Melrakkasléttu sem getur myndað einn hring. Síðan er það þjóðvegurinn með ströndinni, frá Þórshöfn til Vopnafjarðar, þar sem enn eru eftir ómalbikuð svæði. Ég fagna reyndar sérstaklega umfjöllun í áætluninni þar sem gert er ráð fyrir að leggja á þann veg slitlag án þess að fara í viðamikinn kostnað við uppbyggingu, í raun bara uppbyggingu miðað við reiknaðan umferðarþunga þar. Ég held að það séu tækifæri til þess víðar að bæta verulega úr án þess að leggja út í ýtrasta kostnað.

Það hefur til dæmis komið fram, á ferðum okkar þingmanna um Norðausturkjördæmi, að á veginum um Melrakkasléttu er traust undirlag sem mætti bæta mikið með því einfaldlega að setja á slitlag. Ég vil líka vekja athygli á sérstökum áhuga þingmanna Norðausturkjördæmis á þessari umræðu.