145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Til er fjöldi leiða til að auka fjármagn í það. Það á ekki bara við varðandi framkvæmdir í samgöngukerfinu. Gerð var verkfræðileg úttekt á því 2004, áður en núverandi kerfi varðandi umferðaröryggisáætlun var sett af stað, og farið yfir allar helstu leiðir til að auka umferðaröryggi og fækka umferðarslysum fyrir sem minnst fjármagn sem hraðast. Hægt væri að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm banaslysum í umferðinni með því að auka eftirlit lögreglu með hraðakstri og ölvunarakstri. Hv. þingmaður kom líka inn á ölvunarakstur en gerð var verkfræðileg úttekt, eftir samtal allra hagsmunaaðila, og það var talin eðlilegasta leiðin. Þar eigum við náttúrlega að bæta í.

Þá komum við að frumvarpi um smásölu áfengis. Þar er einmitt gert ráð fyrir þessu; í staðinn fyrir að nota boð og bönn til að draga úr áfengisneyslu og afleiðingum hennar að fara leiðir sem er sýnt að virka og reyna að auka fjármagn til lögreglunnar til að koma í veg fyrir ölvunarakstur. Ég starfaði sjálfur í lögreglunni og skrifaði ritgerð um ölvunarakstur, það var lokaritgerð mín í mastersnámi í lögfræði. ÁTVR setur allar sínar verslanir við stofnbrautir vegna þess að það er auðveldara fyrir fólk að koma á bíl. Það harmónerar við umsögn Reykjavíkurborgar um það mál og það eru margar aðrar leiðir, sem ég get farið í gegnum síðar, til að koma í veg fyrir ölvunarakstur samkvæmt ritgerð minni.