145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég er ánægður með að fá slíkar spurningar af því að það er akkúrat mitt uppáhald að fá að ræða þetta. En hvernig verður komandi ár? Ég hef miklar áhyggjur af komandi ári. Eins og ég lýsti áðan er um að ræða almannavarnaástand og ég veit að lögreglustjórar í kjördæmi okkar hafa miklar áhyggjur af þessu, sem og víðar um landið.

Eins og ég sagði áðan um samgönguáætlun er byrjað á þeim stærstu verkefnum sem eru komin inn í áætlunina og við erum farin að sjá framan í þau verkefni. Það er ekki allt gert strax og það er líka út af deilum við landeigendur og öðru að ekki er hægt að hefja framkvæmdir strax þannig að ég hef líka áhyggjur af því. Það er ekki bara fjármagnið sem skortir.

Helstu samgöngumannvirki sem við þurfum að laga í okkar kjördæmi er að klára Reykjanesbrautina, Suðurlandsveginn og einbreiðu brýrnar alveg austur, veginn um Hornafjarðarfljót og víðar. Þannig getum við stóraukið umferðaröryggi. Svo erum við náttúrlega að tala um uppsveitir Árnessýslu líka þar sem er gríðarlegur ferðamannastraumur. Þar þarf að klára Skeiða- og Hrunamannaveg, breikka brýr þar og vegi og byggja upp.

En varðandi það hvernig við getum brugðist við í sumar með það fjármagn sem við höfum þá fer ég aftur í svarið til hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, um lögregluna. Nú þegar hefur ríkisstjórnin samþykkt minnisblað frá Stjórnstöð ferðamála um hvernig hægt er að auka eftirlit lögreglunnar eftir greiningu lögreglunnar á Suðurlandi á umferðarmagni og hvernig eigi að tryggja öryggi ferðamanna, sem er náttúrlega öryggi allra vegfarenda. Það er gert með því að auka eftirlit í uppsveitum og á söndunum þar sem einbreiðu brýrnar eru og annað slíkt. Ég tel gríðarlega mikilvægt að það minnisblað komist í framkvæmd á næstu dögum til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir umferðarslys þar í sumar.