145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:41]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þau voru góð eins langt og þau náðu og ég er sammála honum um að auka þarf löggæslu. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að auka öryggi í umferðinni. Maður finnur það sjálfur þegar maður keyrir um vegi landsins að ef lögreglan er á staðnum þá er hraðinn minni og hættan minni. En ég er líka á því að það sé ekki nóg vegna þess að vegir landsins eru nánast ónýtir. Það er nánast sama hvar maður keyrir um landið, þjóðvegir landsins eru, mér liggur við að segja, í rúst. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég sem keyrir Reykjanesbrautina og Grindavíkurveginn sem er að verða einn fjölfarnasti vegur landsins að þetta er ekki boðlegt. Ef ekki verða gerðar miklar endurbætur og lagðir miklir peningar í að laga þetta þá verða stórslys þarna á næstunni. Það segir sig sjálft.

Mér er minnisstætt það sem einn þingmaður úr Norðausturkjördæmi sagði við mig þegar hann þurfti að keyra Grindavíkurveginn í vetur í rigningu og roki og dimmu: Bíddu, hvernig farið þið að því á hverjum einasta degi að keyra þennan veg? Það segir meira en margt um þetta. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að fækka slysum þá þarf úrbætur. Það kemur til dæmis fram í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys árið 2015 að einn hættulegasti og versti vegurinn á Íslandi var á hringveginum við Þrengslaveg. Eftir að farið var í gagngerar endurbætur á honum og hann lagaður þá hrundi slysatíðnin þar niður. Það segir okkur að við verðum að leggja peninga í að laga vegina, breikka þá og ég tala nú ekki um í Suðurkjördæmi. Maður finnur það bara þegar maður ferðast um kjördæmið og hittir sveitarstjórnarfólk að þetta er mál númer eitt, tvö og þrjú hjá því. Það er gríðarleg umferð upp í Biskupstungur og um allt Suðurland er gríðarleg umferð sem hefur ofboðsleg áhrif á samfélagið. Þetta verður að laga og fyrr en seinna. Við þurfum fjármagn til þess. Hvernig sér hv. þingmaður að við náum í fjármagn í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur afsalað sér tekjum upp á fleiri tugi milljarða sem hefðu getað farið í þessi mál?