145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem er hér og þeirri kröfu frá þingmönnum að fara í meiri fjármögnun og það verði að bregðast við. Þá kalla ég líka eftir því að þeir fylgi því eftir alla leið, að hér og í fjölmiðlum og alls staðar verði ekki bara krafa um aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið eins og hefur heyrst hæst, ég vil líka fá þessa umræðu fram, að hér sé ekki bara krafa um aukið fjármagn til Ríkisútvarpsins, sem ég vil frekar að fari í samgöngumál og umferðaröryggismál, ég tala bara hreint út um það. Við þurfum að taka þetta alla leið. Ég er alveg sammála ykkur, þetta er eitt alvarlegasta málið sem blasir við og við þurfum að forgangsraða í það. Fjármunir eru takmarkaðir og við getum ekki aukið á þensluna og við þurfum bara að ákveða: Ætlum við að setja þetta í Ríkisútvarpið eða einhverjar aðrar stofnanir ríkisins, í samgöngumál, heilbrigðismál, menntamál, þróunaraðstoð — hvert ætlum við að setja peninginn? Þetta er allt undir. Við þurfum að ræða þetta.

Hv. þingmaður nefndi Grindavíkurveginn og Reykjanesbrautin. Þar er ég alveg sammála. Þarna er umferðin að margfaldast. Fjöldi ferðamanna er að margfaldast og fiskflutningar eru að margfaldast á þessum vegi. Hann er búinn að vera vanbyggður frá upphafi, hann var bara vitlaust byggður í upphafi, allt of þröngur, og hver vetur skemmir hann meira. Ég vil ekki þurfa sem íbúi í Grindavík og þingmaður þeirra að fara að berjast fyrir þessum vegi og segja hvernig þetta er — auðvitað berst ég fyrir veginum, en mér finnst bara að um leið og umferðin eykst svona og hættan eykst þá eigi þetta að fara sjálfkrafa í forgangsröðun. Það á ekki að þurfa kjördæmapot til að laga veg og byggja hann upp til þess að tryggja öryggi vegfarenda, tryggja að einn stærsti atvinnuvegur landsins fari þarna öruggur um — reyndar tveir stærstu atvinnuvegir landsins, sjávarútvegur og ferðamennskan sem fara um þennan veg. Þetta á að gerast sjálfkrafa í faglegu ferli. Það er þannig sem það á að vera. Það er aukið fjármagn til viðhalds vega í áætluninni, aukið um milljarð, og ég vona að það fari í þessa fjölförnu vegi og þangað þar sem þörfin er mest. Ég treysti Vegagerðinni til þess.