145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að Alþingi taki samgönguáætlun til umræðu. Ég hef verið ein af þeim hv. þingmönnum sem hafa kallað eftir því að þessi áætlun verði lögð fram og fannst það mjög slæmt að hér væri verið að útdeila fjármunum í fjárlögum síðasta árs án þess að fyrir lægi samþykkt samgönguáætlun. Mér fannst óþægilegt að þar var verið að taka út vegaframkvæmdir og samgönguframkvæmdir án þess að við hefðum tekið stefnumótandi umræðu sem hv. þingmenn hafa auðvitað ólíka sýn á hvernig á að fara fram.

Mig langar að nefna til að byrja með sérstaklega þau markmið sem eru tilgreind í greinargerð með samgönguáætluninni, ólík markmið samgönguáætlunar. Þar eru undir lið 4.3 Markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur. Ég held að það dyljist engum að losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er gríðarlega veigamikill þáttur í baráttu okkar gegn loftslagsbreytingum. Það er lykilþáttur að dregið verði úr losun í samgöngum ef við ætlum að reyna að ná að uppfylla þau markmið sem núverandi stjórnvöld hafa skrifað upp á, hvað þá ef við eigum að setja fram róttækari markmið sem ég held hins vegar að sé í raun mikilvægt, sem er að Ísland verði kolefnishlutlaust í nánustu framtíð, 2040 eða 2050 eða hvernig sem við sjáum það. Til þess að gera það þarf að taka stórstíg skref þegar kemur að losun frá samgöngum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér því að mig langar að spyrja hana sérstaklega út í þetta. Það var gert samkomulag 2011 að mig minnir um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í staðinn var ákveðið að fresta stórum samgönguframkvæmdum, vegaframkvæmdum. Hluti af því er að ná þessum umhverfismarkmiðum.

Samkomulagið hefur haldið sér en eigi að síður er það svo að maður hefði viljað sjá frekari viðbætur koma við þetta samkomulag. Ef við horfum bara á okkar dreifbýla land þá eru langmestu tækifærin til þess að draga úr losun í samgöngum í þéttbýlinu. Það held ég að sé fyrsta skref. Ef við ætlum að taka raunhæf skref til þess að fara til dæmis í rafvæðingu samgangna, sem ég held að sé eitthvað sem við eigum að stíga stór skref í, þá eru innviðirnir til þess bestir á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hún geti upplýst okkur um það hvaða skref verði stigin í rafvæðingu samgangna. Við fljóta yfirferð á samgönguáætlun sé ég ekki nákvæmlega að neinir fjármunir séu áætlaðir í það.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um að hér var samþykkt tillaga um skoðun á léttlestasamgöngum innan höfuðborgarsvæðisins sem og lestarsamgöngum til Keflavíkurflugvallar, samþykkt á Alþingi og samþykkt að innanríkisráðuneytið mundi fara í að meta slíka uppbyggingu. Þær niðurstöður áttu að liggja fyrir fyrir mitt ár 2016 og gætu verið mjög í takt við þau markmið sem við erum búin að setja, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þessi tillaga er líka algjörlega í takt við nýsamþykkt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem miðar að því að byggja upp einhvers konar léttlestakerfi eða hraðvagnakerfi þannig að við getum aukið þátt almenningssamgangna í almennum samgöngum.

Ég sé þessa ekki stað í samgönguáætlun þegar rætt er um suðursvæðið. Hins vegar er talað um að leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut með aðkomu einkaaðila. Það eru engir fjármunir settir í Sundabraut. Mér finnst þetta vekja upp spurningar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti upplýst okkur um hvar vinnan stendur við að meta þetta. Hvernig ætla stjórnvöld að vinna með höfuðborgarsvæðinu að því að breyta samgöngumynstrinu? Eins og ég segi þá eru á þessu landsvæði í raun stærstu tækifærin til að draga úr losun frá samgöngum. Það er hér sem við getum virkilega nýtt okkur almenningssamgöngur og svo auðvitað hjól og aðrar samgönguleiðir.

En vitandi hvernig veðurfar er á þessu ágæta landi þá held ég að við komumst ekkert hjá því að horfa til almenningssamgangna annars vegar og hins vegar rafvæðingar í samgöngukerfinu. Við munum sjá miklar framfarir fram undan í rafvæðingu, en til þess að hún geti fest rætur á Íslandi þarf uppbyggingu innviða. Við þurfum uppbyggingu innviða, annars vegar í þéttbýlinu og svo hins vegar víða um land. Þetta er það sem fólk vill og eftirspurnin er vaxandi eftir þessum ökutækjum.

Mér finnst þarna vera tvennt sem þarf að skoða. Það er almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og efling þeirra í takt við samþykkt Alþingis um það og í takt við nýsamþykkt svæðisskipulag og hins vegar hvernig við breytum orkugjöfunum. Hér eru talin upp ákveðin markmið um orkugjafa sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. En eru einhverjir fjármunir til að byggja upp þessa innviði? Hvar eru fjármunirnir sem við þurfum til að byggja upp innviði? Ef við ætlum að ná alvörulausnum í loftslagsmálum þá verðum við að sætta okkur við að það kostar. Við getum hins vegar verið mjög ánægð með að við höfum einstakt tækifæri, verandi auðugt land af auðlindum, að gera þetta. Við gætum orðið frumkvöðull í því að draga úr losun frá samgöngum ef við þorum að horfa til lengri framtíðar og fjárfesta í þessum innviðum, almenningssamgöngunum annars vegar og rafvæðingunni hins vegar. Ég held að þetta skipti miklu máli fyrir bæði höfuðborgarsvæðið en líka fyrir landsmenn alla og alþjóðasamfélagið og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.

Þetta er það sem brennur á mér og miðað við stóra samhengið, þegar við horfum á loftslagsbreytingarnar sem eru auðvitað stóra málið sem við þurfum að takast á við, þá hefði ég viljað sjá ríkari áherslu á þetta í þessu plaggi.

Síðan tel ég að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að skoða þessi mál. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason sem talaði hér á undan mér nefndi að það væri kannski ekki rétta leiðin að við værum að skoða þetta, þingmenn einstakra kjördæma. Mér finnst mikilvægt af því að ég er nú þingmaður Reykjavíkur að nefna vegaframkvæmdir víða um land. Ég vil til dæmis nefna sérstaklega hringveginn og veginn um Öxi. Ég veit að það er umdeilt mál í ljósi þess að búið er að malbika fjarðaleiðina en ekki hringveginn um Öxi sem oft er lokaður. En þetta er stórmál fyrir landsmenn alla. Þetta er ekki bara einkamál Norðausturkjördæmisins frekar en samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst mikilvægt að við reynum að nálgast það dálítið heildstætt þegar við ræðum framkvæmdirnar og hvað skipti máli. Það liggur alla vega fyrir að þessu leyti að mér hefur sýnst skynsamlegast að klára hringveginn og bæta veginn um Öxi. Ég veit að það eru önnur sjónarmið uppi, þeirra sem vilja færa hringveginn í raun og veru niður í fjarðaleiðina. En þetta finnst mér vera dæmi um pólitíska ákvörðun sem þarf að taka opna umræðu um.

Ég vil líka nefna að það eru margar vegaframkvæmdir sem maður vildi sjá ganga hraðar. Ég get nefnt vegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á borð við endurgerð á þjóðvegi 42. Mér sýnist vera kílómetri eftir þar. Maður hugsar að það sé ansi freistandi að ljúka slíkum smáframkvæmdum. Ég nefni veg nr. 48, ég nefni fjögurra kílómetra kafla á vegi nr. 30 til þess að klára slíkar framkvæmdir. Það er mjög freistandi að horfa til þess að við séum ekki í þessum bútasaumi.

Hæstv. ráðherra sér að ég hef mikinn áhuga á því að mæla kílómetra sem eru eftir í bundnu slitlagi. Það liggur fyrir. En þarna finnst manni að það væri svo gott að geta lokið við einhver lítil skott sem eru eftir þar sem maður keyrir um á malbikuðum vegi og lendir svo skyndilega á einhverju þvottabretti í einn kílómetra. Við erum að hugsa um öryggi ferðamanna. Hér hafa margir hv. þingmenn gert umferðaröryggi að umtalsefni og það snýr auðvitað að því líka að klára slíkar umbætur. Nú þekki ég ekki hversu mikið þær kosta. En manni finnst þetta vera stuttir spottar sem eru eftir.

Það síðasta sem ég næ að nefna, en hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerði að umtalsefni hér á undan, eru auðvitað Dýrafjarðargöng sem þurfa að komast fyrr á dagskrá. Þau tengjast samgöngumálum á Vestfjörðum almennt sem er enn þá svæði sem við þurfum að skoða sérstaklega. Ég átta mig á því að það eru ekki til endalausir fjármunir til samgangna en ég vil sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og hafandi keyrt um alla Vestfirðina segja að þarna sjá allir sem fara um að það skiptir máli að við séum með einhverja heildarsýn. Ég veit að Vestfirðingar eru orðnir mjög langeygir eftir umbótum og ekki síst Dýrafjarðargöngum og síðan þjóðveginum um Dynjandisheiðina.

En stóru spurningarnar sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra, ef hún getur svarað mér, snúa að loftslagsmarkmiðum, snúa að almenningssamgöngum og þeirri tillögu sem var samþykkt hér um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu og að meta hagkvæmni þess út frá umhverfislegum, efnahagslegum og samfélagslegum þáttum. Þetta eru risavaxin mál sem tengjast líka rafvæðingu samgangna og hvernig við getum í heild náð árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.