145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þori ekki að fara með það hvort svo sé, ég held að menn séu enn að fjalla um grundvöll í þessu máli. Ég segi bara eins og er að mér finnst skynsemi fólgin í því að hafa fjölbreytt val um það hvernig menn haga samgöngum sínum, hver og einn. Hv. þingmaður nefndi rafbílana og tengingar og allt þetta, það er mál sem snertir marga, sveitarfélögin, þetta tiltekna ráðuneyti, önnur ráðuneyti, skattlagningu, iðnaðaruppbyggingu að hluta til þegar litið er til rafvæðingar. Ég hygg því að menn þurfi að líta í mörg horn þegar menn ræða þetta.

Í mínum huga er skynsemi fólgin í því að menn hafi val um það hvernig þeir haga sínum samgöngum. Ég vil líka taka undir það með hv. þingmanni, út af almenningssamgöngum og strætisvögnum, að ég held að við getum verið sammála um það að alls staðar í heiminum þar sem það kerfi gengur hvað best þá eru ferðirnar mjög tíðar. Menn geta stólað á það að strætó kemur eftir örskamma stund. Að sama skapi kostar almenningssamgöngukerfið töluvert. En það getur vel verið að það þurfi líka að kenna fólki á það með því að hjálpa til í upphafi. Kannski höfum við ekki gengið nógu langt í því. Þarna erum við auðvitað farin að tala um mál sem eru að vissu leyti á forræði sveitarfélaganna. Ef við ætlum að sjá strætó virka eins og við sjáum best þá þarf aðra tímatöflu en við erum vön og höfum ráð á eins og staðan er, alla vega eins og þetta hefur verið undanfarin ár.

Ég vil að lokum segja, út af öðru sem hv. þingmaður nefndi: Það er eðlilegt, þegar við erum að ræða samgönguáætlun, að menn togist svolítið á á milli kjördæma, en ég vil endilega biðja menn um að horfa upp af því að þetta varðar okkur öll. Vegspottar úti á landi varða líka okkur öll. Hv. þingmaður nefndi að menn væru ekki að klára hlutina og við erum (Forseti hringir.) dálítið í bútasaumi, það verður nú bara að viðurkenna það. Oft eru það deilur sem valda því að einn kílómetri verður eftir hér og þar, deilur sem geta þess vegna varað í ótrúlega langan tíma. Það flækist líka inn í þetta.