145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég ítreka það að svona stór mál kalla á samhæfða stefnumótun ólíkra ráðuneyta og ólíkra stofnana. Ég tel það forgangsmál fyrir Ísland að við grípum til raunhæfra aðgerða í loftslagsmálum. Það á að vera markmið óháð kjördæmum af því að við höfum dálítið rætt um það. Ég hef áhuga á umbótum í samgöngumálum í öllum kjördæmum og mér finnst að allir þingmenn í öllum kjördæmum eigi að hafa áhuga á því hvernig við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem þingmaður Reykjavíkur horfi ég á það að líklega eru einföldustu tækifærin til að byrja hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég legg því mikla áherslu á almenningssamgöngurnar. Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu að sinni en vona að við munum sjá úrbætur á áætluninni í meðförum þingsins og sérstaklega í þá átt sem ég nefndi hér.