145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun. Ég held að það sé okkur til umhugsunar sem erum hér í verkum á Alþingi, þingflokksformenn, forsætisnefnd o.s.frv., að við þurfum að endurmeta hversu lengi fólk fær að tala í þessari umræðu. Það væri auðvitað hægt að tala hér tvöfaldan ræðutíma, ég held að það sé fullt tilefni til þess. Þetta er óþægilega stuttur ræðutími, tíu mínútur, þar sem efnið snýst ekki bara um prinsipp í málinu heldur líka upptalningu á tilteknum landshlutum, vegarspottum o.s.frv. Eðli málsins samkvæmt þarf lengri ræðutíma, en ég ætla ekki að eyða þessum stutta ræðutíma í að tala um lengri ræðutíma. Það væri undarlegt.

Nokkur atriði langar mig til að ræða, forseti, í fyrsta lagi það sem hér hefur aðeins verið drepið á og olli mér nokkrum áhyggjum þegar ég kom ásamt hv. umhverfis- og samgöngunefnd í heimsókn á Samgöngustofu þar sem allt starf er með miklum ágætum og til mikillar fyrirmyndar. Þar hefur til að mynda samruni stofnana gengið vel og verið unnið afar gott starf. Áhyggjumál var hversu lítið rými í umræðu dagsins loftslags- og umhverfismál hafa. Ég held að þar sé á ferðinni ákveðin tímaskekkja því að við höfum viljað vera brött á alþjóðavísu þegar þessi málaflokkur er annars vegar, þ.e. umhverfismálin og loftslagsmálin. Þar eru samgöngumálin alltaf mjög miðlæg, sérstaklega í samgöngukerfum eins og okkar þar sem af landfræðilegum ástæðum og ýmsum öðrum ástæðum, menningarlegum o.s.frv., er tiltölulega mikið um einkabílinn. Við höfum unnið í því að breyta þeim hlutföllum á undanförnum árum en við erum tiltölulega þungbíluð þjóð og bílarnir okkar eru tiltölulega neyslufrekir. Það hversu mikið við nýtum af jarðefnaeldsneyti fyrir bílaflota okkar er áhyggjuefni vegna þess að þar er um að ræða töluverða losun á gróðurhúsalofttegundum.

Allar áætlanir og greiningar sem við höfum verið að vinna í þeim efnum hafa snúist um bílaflota heimamanna fyrst og fremst og þar hefur kannski lítið verið horft til þeirrar staðreyndar að eknum kílómetrum ferðamanna á bílaleigubílum fer fjölgandi, nánast í veldisvexti, frá ári til árs. Þar erum við líka að tala um töluverða aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vil beina þeirri hugsun til hæstv. ráðherra, af því að hún er stödd við umræðuna, að farið verði yfir það sérstaklega með Samgöngustofu með hvaða hætti væri hægt að þyngja þessi sjónarmið. Ég spurði hæstv. umhverfisráðherra í fyrirspurn um samspilið við samgönguyfirvöld og það var mjög veikt svar sem ég fékk frá umhverfisráðherra um þau mál. Ég tel að ef við ætlum að standa undir nafni að því er varðar Parísarmarkmiðin og sýn okkar í þessu máli þurfum við að gera miklu betur að því er varðar stefnumótun og skýrar aðgerðir í þágu þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í öðru lagi langar mig að nefna tvö sjónarmið sem ég tel vera lykilatriði í uppbyggingu samgönguinnviða. Í fyrsta lagi er það skýrara samstarf við ferðaþjónustuna og ráðuneyti ferðamála þegar horft er til mismunandi umferðar og mismunandi aðdráttarafls einstakra ferðamannastaða og síðan nýsamþykkt áætlun um innviði á ferðamannastöðum sem var mál flutt af hæstv. umhverfisráðherra. Mér varð að orði þegar við vorum að ræða þau mál að nær væri að byrja á uppbyggingu vegakerfisins vegna þess að mikilvægustu innviðir ferðaþjónustunnar er hreinlega samgöngukerfi hvers samfélags. Þar erum við líka eftir á. Ég er að tala um að ná dampi í því að áætlanir okkar endurspegli hinar öru breytingar í atvinnulífi okkar og uppbyggingu.

Í þriðja lagi langar mig að nefna það atriði sem ég hef viljað orða sem svo að samgöngumál eru velferðarmál fyrir okkar dreifðustu byggðir. Þá vil ég taka undir orð þeirra sem hér hafa talað og hafa viljað árétta það að við sem erum þingmenn kjördæmanna erum auðvitað þingmenn alls landsins í öllum málum og eigum að vera það í öllum málum. Við eigum að láta okkur varða Langanes og Öxi og Dýrafjarðargöng og Hvalfjarðargöng og Miklubraut. Öll. Annað er ekki faglegt og okkur er ekki sæmandi annað en að nálgast umræðuna með þeim hætti. Ég fagna því sérstaklega sem kom fram hjá hv. þm. Haraldi Einarssyni sem vildi horfa á samgönguáætlun meira með augum þess sem vill draga úr slysum með öryggissjónarmiðin að leiðarljósi. Mér finnst það ákveðinn galli við uppsetningu áætlunarinnar að hún er enn gamaldags að því leytinu til að hún hangir mikið á þessari kjördæmaskiptingu þannig að tilhneigingin er sú að hver þingmaður lesi sinn kafla og standi sína vakt í þingsalnum. Það er ekki gott af því að hér erum við að tala um gríðarlegar upphæðir og við erum að tala um svo mikilvægan þátt í uppbyggingu og framtíðarsýn að því er varðar byggð í landinu, bæði samgöngur innan svæða — og hér hefur verið talað um hringtengingar — og samgöngur út úr svæðum og inn á svæði, þá erum við að tala um í tengslum við nýjar atvinnugreinar eins og fiskeldi eða aðrar greinar sem gera kröfu til örari og tíðari samgangna en við höfum getað boðið upp á. Svo ekki síður eru það alls konar aðrar breytingar á atvinnuuppbyggingu og síðan einfaldlega það að fólk komist til og frá vinnu, að það komist til og frá að því er varðar heilbrigðisþjónustu, menntakerfi o.s.frv.

Fyrir fólk í strjálustu byggðunum snúast áhyggjurnar ekki fyrst og fremst um það hvort það verði lagður nýr vegur heldur einfaldlega það hvort vegurinn sem fyrir er sé í lagi, að honum sé sinnt, hann sé mokaður og ruddur eftir atvikum. Þá dettur manni auðvitað í hug Árneshreppur eða slík sveitarfélög, þar sem býr fólk sem borgar líka skatta eins og við hin og ætti auðvitað að njóta þeirrar lágmarksþjónustu að búa við ásættanlegt samgöngukerfi.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór nokkuð yfir mál sem lúta að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað almenningssamgöngum úti um allt land sem er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúa og mikilvægt umhverfismál og mikilvægt mál að því er varðar líka viðhald og uppbyggingu á vegum úti.

Ég staldraði við það í andsvari áðan að hér í áætluninni er lítil lína um umferðaröryggismál eða umferðarfræðslu til ferðamanna. Ég held að það sé þáttur þar sem við þurfum að gera umtalsvert betur. Það fer vaxandi að ferðamenn ferðist á eigin vegum, að þeir séu ekki endilega í rútum eða skipulögðum ferðum á vegum innlendra aðila. Þar er um að ræða fólk sem fer út á vegina með litla eða takmarkaða þekkingu á umferðarmenningu hér eða bara yfirleitt því að aka um einbreiðar brýr eða malarvegi. Eins og við sjáum því miður í okkar tölum, bæði alvarlegum slysum og dauðsföllum, tekur þessi veruleiki allt of stóra tolla í samgöngukerfi okkar. Það er þáttur sem skiptir máli.

Virðulegi forseti. Nú er einmitt það að gerast sem kemur fyrir okkur öll í þessari umræðu, að tíminn líður allt of hratt. Einhverjum þingmanni varð að orði hérna frammi og fullyrti að tíminn liði tvöfalt hraðar í þessari umræðu en öllum öðrum umræðum því að einhvern veginn væri ræðutíminn búinn fyrr en maður áttaði sig á.

Mig langar alveg að lokum að nefna að hér er í heildina um að ræða allt of lágar upphæðir. Þessi áætlun er þjóðhagslega langt undir öllum öðrum viðmiðum á öllum öðrum tímum og hér er ekki brugðist við stórauknum ferðamannastraumi eða stóraukinni þörf fyrir öflugar samgöngur með viðhlítandi hætti. Það skyldi þó aldrei vera að það yrði hlutskipti nýrrar ríkisstjórnar enn eina ferðina að koma skikk á þessi mál.