145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir heillaóskir til hæstv. innanríkisráðherra fyrir að samgönguáætlun er komin fram. Það liggur í hlutarins eðli að samgönguáætlun verður aldrei ánægjulestur okkur öllum meðan mörg verkefni bíða. Það verður aldrei ánægja með samgönguáætlun meðan fólk býr innilokað bak hárra fjalla eins og til dæmis á Seyðisfirði eða Vestfjörðum. Meðan fólk býr við skertar samgöngur vegna hafnleysis eins og í Vestmannaeyjum og fólk á höfuðborgarsvæðinu er 50 mínútur á milli hverfa á hverjum degi verður sennilega aldrei mikil ánægja með áætlunina vegna þess að okkur þykir ekki skila nógu vel fram. Samt sem áður eru í þessari áætlun margir mjög jákvæðir hlutir. Það er til dæmis mikið ánægjuefni að við sjáum nú í bókstaflegri merkingu fyrir endann á Norðfjarðargöngum. Eftir að hafa búið á Eskifirði í 11 ár veit ég að þegar þau verða tekin í notkun verður þau bylting fyrir fólkið sem þar býr hvað varðar sameiginlega skóla, vinnusvæði, menningu og annað. Það er líka gleðiefni að við sjáum hilla undir að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist árið 2017. Þar erum við náttúrlega, á Vestfjörðum, í bullandi varnarbaráttu og erum í raun að tryggja að byggð á Vestfjörðum leggist ekki af. Ég er mikill unnandi Vestfjarða og hef verið þar eiginlega á hverju ári síðan ég komst á fullorðinsár og hef dáðst að fólki sem þar býr. Ég hef eiginlega beðið þess á hverju sumri þegar ég fer þangað að menn gefist ekki upp og þrauki einn vetur enn vegna þess að möguleikar þess landshluta eru þannig að okkur öllum er til vansa að samgöngur eða skortur á þeim skuli halda aftur af byggðaþróun og atvinnuþróun þar.

Ég vil geta þess að það eru nokkur ánægjuefni hvað varðar mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmi. Þar er gríðarlega ánægjulegt að í Arnarnesvegi skuli vera unnið fyrir 380 milljónir á þessu ári og að það sjái fyrir endann á framkvæmdum þar á því næsta. Það er líka ánægjuefni, ekki bara ánægjuefni, það er feginleiki sem grípur mann þegar maður veit að það verður farið í mislæg gatnamót sunnan Hafnarfjarðar árið 2017 og tvöföldun Reykjanesbrautar suður eftir vegna þess að í raun og veru eru þau gatnamót, eins og segir í Ameríku, slys sem bíða eftir að verða. Ég vona sannarlega að við sleppum þangað til mislægu gatnamótin eru komin. En það vantar enn upp á vegna þess að Reykjanesbrautin er fjölfarnasti vegur á Íslandi og sá vegur sem flestir ferðamenn sem hingað koma aka um og væntanlega fyrsti vegur sem þeir aka á Íslandi, annaðhvort í rútu eða á eigin bíl, bílaleigubíl. Það ríður á miklu að Reykjanesbrautin sé í góðu standi og verði öll tvöfölduð alla leið. Það er líka þyngra en tárum taki að svo virðist sem Vegagerðin hafi verið svo blönk undanfarin missiri að það logar ekki nema á öðrum hverjum ljósastaur á leiðinn suður eftir þannig að í sjálfu sér er lýsingin eiginlega verri en ef hún væri ekki. Á þessu þarf náttúrlega að ráða bót vegna þess að sá kostnaður getur ekki sett Vegagerðina á hliðina. Þegar við horfum á þá gríðarlegu umferð sem þarna er og það öryggi sem lýsingin er verðum við náttúrlega að bæta í.

Það má líka lýsa ánægju með að tvöfalda eigi í Mosfellsbænum árið 2018 og síðan á Kjalarnesi því að þetta mun náttúrlega auka öryggi þeirra sem þarna fara um og spara mönnum drjúga ergju.

Það er eitt líka sem ég vil eindregið mælast til við þá sem koma að bæði umhverfis- og samgöngunefnd og fjárlaganefnd. Nú liggur fyrir hugmynd að nýjum Herjólfi og ég hvet menn til að fara varlega þegar ákveðin verður hönnun og bygging þess skips, sem kostar ef ég man rétt rúma 4 milljarða, vegna þess að það ríður á miklu að skipið dugi. Ég held að við komum til með að búa við það næstu árin, ég sé að minnsta kosti enga breytingu þar á, að við verðum með Landeyjahöfn lokaða í þrjá til fjóra mánuði á ári og þá verðum við að hafa bæði öflugt skip og hraðskreitt þannig að menn finni ekki eins fyrir því að þurfa að fara til Þorlákshafnar þegar þannig viðrar. Hins vegar sé ég ekki í fljótu bragði að það verði einhver lausn á Landeyjahöfn yfir höfuð þannig að ég veit ekki nema menn eigi að taka sér þann tíma sem þeir þurfa til að vera þá með nógu hraðskreitt skip til að sigling til Þorlákshafnar taki ekki lengri tíma en svo að menn geti unað við.

Það er eitt sem ég hef tekið eftir í þessari umræðu, og þykist hafa fylgst þokkalega með henni, ég hef ekki heyrt nokkurn einasta mann minnast á Reykjavíkurflugvöll og mér finnst það undarlegt. Það kemur í ljós að í þessari annars ágætu áætlun er ekki gert ráð fyrir einni krónu í framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli. Ég verð að viðurkenna líka að ég hef reyndar áhyggjur af framtíð Reykjavíkurflugvallar. Eins og málin standa í dag er samkomulag milli ríkis og Reykjavíkurborgar um átta eða níu ár. Að þeim tíma liðnum vitum við ekki neitt. Framkoma Reykjavíkurborgar í málefnum Reykjavíkurflugvallar og hvernig hún hefur hagað sér í sambandi við enda neyðarbrautarinnar er náttúrlega hneyksli. Ég vona að innanríkisráðherra haldi málaferlum til streitu í því máli vegna þess að það gengur ekki að hagsmunir fárra eignamanna sem vilja byggja stórt við endann á þessari braut komi til með að skerða öryggi flugvallarins fyrir alla aðra. Það gengur einfaldlega ekki.

Síðan er annað líka sem mér hefur ekki fundist vera tekið mikið á í þessari umræðu, málefni Keflavíkurflugvallar. Nú er illt að Ríkisendurskoðun skuli ekki hafa skilað skýrslu um rekstur Isavia. Sá sem hér stendur og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir báðu fyrir rífu ári síðan um úttekt á rekstri þess félags vegna þess að við teljum að þar megi betur halda á. Við vitum hins vegar ekki hvort skýrslan staðfestir það eður ei af því að hún er ekki komin fram. Hins vegar hefur komið fram að þar er verið að byggja upp og þarf að byggja upp fyrir nokkra milljarðatugi á næstunni. Ég er búinn að sjá áætlanir Isavia um lagfæringar á flugbrautum Keflavíkurflugvallar sem eru dýrt spaug en nauðsynlegt. Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af þeim hlutum á Keflavíkurflugvelli sem tilheyra ekki samgönguáætlun. Ég hef áhyggjur af þeim hlutum sem ríkið kemur beint að. Ég hef meðal annars áhyggjur af löggæslu á Keflavíkurflugvelli. Ég hef áhyggjur af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Við höfum byggt upp þarna mjög margt gott til að greiða fyrir flæði farþega. Við höfum tekið á öryggismálum. Þó að ég hafi áhyggjur af slökkviliðinu á vellinum höfum við tekið á öryggismálum á Keflavíkurflugvelli en það sem snýr beint að ríkinu hefur setið á hakanum. Í ljósi nýorðinna atburða mjög nálægt okkur í Evrópu gengur ekki að fyllsta öryggis sé ekki gætt á Keflavíkurflugvelli. Það gengur einfaldlega ekki. Þótt ég viti að það tilheyri ekki þeirri áætlun sem við erum að ræða hér verðum við einfaldlega að bæta þar í til þess að tryggja öryggi fólks sem á leið um völlinn, til að tryggja að hingað inn flæði ekki ólögleg efni eða efni sem varða öryggi þjóðarinnar. Ég treysti því að hæstv. innanríkisráðherra taki þar á. Ég mun styðja hana í því efni alveg til enda því að þetta var vinnustaður minn til 11 ára og ég veit hvernig uppbyggingin var árið 2006 þegar þarna var gerð uppbyggingaráætlun til 2025, með bjartsýni, svartsýni og því sem menn bjuggust við. Mig minnir að bjartsýnustu spár fyrir árið 2015 hafi verið komnar á árið 2011 þannig að þetta er ekki einfalt verk. Það er ekkert auðvelt að taka þátt í svona uppbyggingu og það er ekkert auðvelt að skipuleggja hana en við verðum að gera það vegna þess að annað er ekki í boði.

Að þessu sögðu ítreka ég þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa áætlun og ég vona að við getum afgreitt hana með sóma.