145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:28]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar sem eru að mínu mati mjög mikilvægar. Í fyrsta lagi spurði hv. þingmaður hvort hér væri gert ráð fyrir því að fyrir fram væri ákveðin stærð eða umfang þessara skýrslna.

Því má kannski svara þannig að það sem þetta frumvarp gengur mjög mikið út á er að reyna í upphafi áður en skýrsluvinnan, athugunin eða rannsóknin hefst að afmarka viðfangsefnið. Við sem kunnum eitthvað fyrir okkur í aðferðafræði, eins og okkur er kennd hún í háskólum, gerum okkur grein fyrir því að þetta atriði er gríðarlega mikilvægt. Ég hygg að með sanngirni megi segja að þetta sé kannski eitt af þeim atriðum sem við lærðum svolítið af þeim fyrri skýrslum sem gerðar hafa verið, að við höfðum kannski ekki alveg hugsað málið til enda þegar við fórum út í þessa vinnu. Kannski má segja að við höfum verið að feta alveg nýja slóð.

Þess vegna er lagt svo mikið upp úr því í þessu frumvarpi að áður en við hefjumst handa fari stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mjög nákvæmlega yfir afmörkunina, búi til rannsóknarspurningar sem eru síðan lagðar til grundvallar og að forseti Alþingis fari með skrifstofu þingsins og eftir atvikum bæði Ríkisendurskoðun og umboðsmanni yfir málið til að tryggja að sú vinna sem ætlunin er að hefja nái örugglega því markmiði sínu að fjalla nákvæmlega um þau atriði sem þingið vill að séu sérstaklega skoðuð. Það má kannski segja sem svo: Nei, það er ekki verið að segja að þetta megi bara vera ákveðið blaðsíðutal, við erum hins vegar að reyna að afmarka viðfangsefnið.

Varðandi það að einstakar þingnefndir skili skýrslum er það auðvitað ákvörðun hverrar þingnefndar fyrir sig. Hér erum við eingöngu að fjalla um þetta afmarkaða viðfangsefni rannsóknarnefndir sem eru sérstaklega settar á laggirnar. Þá skulum við ekki gleyma því að við göngum út frá því að rannsóknarnefndir séu ekki settar á laggirnar nema önnur úrræði séu tæmd. Í fyrsta lagi geta ýmsar þingnefndir auðvitað rannsakað mál og í öðru lagi höfum við bæði Ríkisendurskoðun og umboðsmann. Ég hygg að við þurfum þá strax að velta fyrir okkur (Forseti hringir.) hvort við teljum ekki hægt að ná einhverjum árangri með því að nota önnur úrræði en rannsóknarnefndir.