145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Frá því að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók hér við hefur óvissan vaxið dag frá degi. Þegar ríkisstjórnin var kynnt á frægum stigafundi sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, með leyfi forseta:

„Við hyggjumst stefna að því að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust.“

Ég endurtek: Við hyggjumst stefna að því að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust.

Hæstv. ráðherra segir við fyrirspurn Kjarnans:

„Eins og fram hefur komið mun verða boðað til kosninga í haust. Dagsetning hefur ekki verið ákveðin.“

Forseti. Þetta liggur enn ekki fyrir og það er algjörlega óásættanlegt. Hæstv. forsætisráðherra boðar stjórnarandstöðuna til fundar í síðustu viku og svo lekur listi, einhvers konar forgangslisti, út úr Stjórnarráðinu í fréttatíma RÚV í gærkvöldi. Óvissan og fundaleysið er algjörlega í boði núverandi ríkisstjórnar og hlýtur að vera á skjön við metnað hæstv. núverandi nýviðtekins forsætisráðherra, (Forseti hringir.) Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Forseti. Ég bið um ásjá og stuðning forseta í því að reyna að koma skikk á þingstörfin því að þetta er algjörlega óásættanlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)