145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir árnaðaróskir til nýliðanna hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hæstv. forseta, sem bættust hér í hópinn 1991. En ég verð að taka undir það að það er dálítið merkileg staða að ríkisstjórnin, sem er hálfsmánaðar gömul á morgun — er það ekki rétt herra forseti? — færði fram sem rök fyrir því að hún þyrfti að sitja í einhverja mánuði í viðbót að hún væri með nokkur mál svo mikilvæg sem hún þyrfti að ljúka afgreiðslu á. En nú er hálfur mánuður liðinn og það liggur ekki fyrir hver þau mál eru. Það átti með öðrum orðum eftir að finna út úr því hvaða mál væru svona mikilvæg. Það hefur tekið hálfan mánuð og sá listi er ekki kominn fram enn nema ef vera skyldi í gegnum leka í fjölmiðla sem kemur augljóslega úr stjórnarherbúðunum því að ekkert hefur stjórnarandstaðan séð.

Forsætisnefnd Alþingis gerir núna iðulega breytingar á starfsáætlun. Í tvígang, þrígang hefur henni verið vikið til; nefndadögum skipt út fyrir þingfundadaga eða öfugt. Með öðrum orðum: Menn eru farnir að spila þetta af fingrum fram í ljósi þeirrar óvissu að hér situr ríkisstjórn sem hefur (Forseti hringir.) ekki getað komið sér niður á hvað hún vill eða til hvers hún er. Hún hefur haft til þess hálfan mánuð. Það er alveg meðalfæðingartími nýrra ríkisstjórna en hefur samt ekki dugað til í þessu tilviki. Þetta gengur ekki upp herra forseti. Það er alveg augljóst mál. Þingið getur ekki látið bjóða sér þetta svona.