145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er að vona að hæstv. forsætisráðherra sé maður orða sinna og að á þessum fundi í síðustu viku hafi hugur legið að baki en ekki einhverjir klækir. Þar var talað um að síðar í vikunni yrði komið fram með kjördag og málaskrá. Hvorugt hefur sést. Sumir þingmenn eru farnir að tala digurbarkalega hér á göngunum um að ekki þurfi að kjósa fyrr en næsta vor. Það hefur verið skýr krafa frá kjósendum þessa lands að fá hér kosningar því að fólk treystir ekki ríkisstjórninni.

Við skulum muna af hverju þetta vantraust er á ríkisstjórninni, það er vegna þess að með afhjúpun á pappírum frá Panama kom í ljós að þrír ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar höfðu átt fyrirtæki í aflandsfélögum. Tveir þeirra sitja enn og við það verður ekki unað, herra forseti. Nú verðum við að fá kjördag og málaskrá sem hægt er að fara yfir og meta hvernig hægt sé að vinna.