145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í velferðarnefnd eru mörg stór þingmál frá ríkisstjórninni sem við í minni hlutanum höfum tekið fullan þátt í að vinna af sem mestri trúmennsku, við höfum vandað vinnubrögðin og reynt að flýta því að hægt sé að koma þessum málum út úr nefndinni og gera þau að lögum.

Ég ætla þó að fara fram á það við hæstv. forseta að hér verði ekki nefndadagar í næstu viku því að það er óeðlilegt að gengið sé svo nærri okkur sem höfum sýnt trúmennsku og á okkur hefur verið hægt að treysta. Það væri verið að misnota traust okkar að ætlast til þess að við stöndum í þessari vinnu og þessari samvinnu án þess að vita nokkuð hvað framtíðin á að bera í skauti sér.

Ég fer fram á það að hér verði ekki haldnir nefndadagar fyrr en fram er kominn kosningadagur og forgangsmálaskrá frá ríkisstjórninni.