145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að rifja það upp að í umræðu í þessum þingsal þar sem við ræddum tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof og kosningar strax, tillögu sem því miður var felld, þá sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, með leyfi forseta:

„En við höfum hlustað. Það gerist ekki fyrir tilviljun að forsætisráðherra ákveður að stíga til hliðar. Það gerist ekki fyrir tilviljun að stjórnarflokkar hér, með vel ríflegan meiri hluta, ákveða að stytta kjörtímabilið.“

Það hefur ítrekað komið fram hjá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar að kjörtímabilið eigi að stytta og að hér verði kosið í haust. (Forseti hringir.) Í rauninni þarf ekki að segja meira. Það eina sem við getum gert og er í rauninni alveg ótrúlegt að (Forseti hringir.) við skulum þurfa endalaust að standa hér og kalla eftir þessari dagsetningu. Það er svo margbúið að lofa þessu að núna verðum við að fá efndirnar og fá dagsetninguna.