145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

málaskrá og tímasetning kosninga.

[15:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og er á nokkuð svipuðum slóðum og verið hefur undanfarnar vikur. Mér finnst satt að segja enginn bragur á því að forsætisráðherra komi ekki skýrt fram og segi við okkur hvenær ætlunin er að kosið verði til Alþingis og hver þau forgangsmál eru sem ríkisstjórnin leggur áherslu á.

Við heyrum síðan alls konar leka og fréttir sem koma úr Stjórnarráðinu um þau mál sem ríkisstjórnin kunni að vilja leggja áherslu á. Það eru húsnæðismál; þar eru samskiptin við stjórnarandstöðuna ekki vandamál, vandamálið hefur hingað til frekar verið innri sundurþykkja stjórnarflokkanna um þau. Það er talað um frumvarp um hámark á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu; það er mjög gott skref sem ég held að njóti almenns stuðnings sem skref í rétta átt. Breytingar á tryggingagjaldi sem ríkisstjórnin er loksins að manna sig upp í að gera eitthvað við og við höfum kallað eftir í þrjú ár; ekki munum við stoppa það. Ríkisfjármálaáætlun sem við stöndum heils hugar að að fái afgreiðslu hér og skiptir miklu máli. Ég heyrði meira að segja talað um lokafjárlög; það er kannski ástæða til að fresta þingstörfum fram á haust að afgreiða þurfi lokafjárlög.

Þetta er orðinn slíkur brandari, virðulegi forseti, ráðleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim forgangsmálum sem hún ætlar að leggja áherslu á, að við hljótum að spyrja hæstv. forsætisráðherra í forundran hver þessi mál séu. Hvar eru vandamálin? Ég er búinn að þylja upp þau mál sem hafa verið í almennri umræðu; ekkert þeirra er vandamál gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni. Af hverju vill forsætisráðherra einfaldlega ekki láta reyna á vilja okkar hér til samstarfs?

Við erum tilbúin að afgreiða mál þannig að komi stjórnarflokkarnir með málin geta þeir stillt af dagsetninguna sem þeim þóknast í haust. Eða er það þannig að tregðan til að upplýsa um dagsetningu sé vegna innri ósamstöðu stjórnarflokkanna og er það vegna þess að þeir ná ekki saman um það hvenær þeir treysti sér til að mæta kjósendum og upplifa sitt skapadægur?