145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

skattaskjól á aflandseyjum.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hver samtími lifi þannig að það séu örlagatímar fyrir hann. Ég held að það sé hægt að horfa í söguna og sjá hvort einhverjir tímar séu meiri örlagatímar en aðrir. Ég vil í upphafi segja að hér er ekki pólitískt uppnám, ekki af nokkru tagi. Við þær aðstæður sem sköpuðust fyrir hálfum mánuði tókst á tveimur dögum að skapa sömu ríkisstjórn með sama öfluga meiri hluta, sama stjórnarsáttmála og við höldum áfram öflugu starfi þeirrar ríkisstjórnar sem á undan starfaði og ætlum að halda því áfram.

Hér voru heldur ekki pólitísk spillingarmál. Hins vegar er sú staða uppi að það er orðið ljóst, og það ber að þakka, að ljósi hefur verið varpað á þá staðreynd að fjöldinn allur af íslenskum fyrirtækjum hefur nýtt sér það að fara með fjármuni í skattaskjól, lágskattaríki, og án efa einhver hluti þeirra til að leyna eða greiða ekki skatta þó að það eigi að sjálfsögðu ekki við um alla. Það er rétt að gera skýran greinarmun á slíku.

Við þurfum hins vegar að taka á þeim aðilum sem hafa flúið með fé til að leyna því eða komast undan því að greiða eðlilegt samfélagsgjald sem við öll hin gerum. Í hvaða farveg höfum við sett það? Jú, við settum strax af stað vinnu í þinginu til að upplýsa um stöðuna. Við höfum lýst því yfir að þeim stofnunum sem við höfum ætlum við að beita til þess að rannsaka þessi mál til hlítar og leiða til lykta. Ég hef staðið í þessum ræðustól og skorað á þá aðila sem þar eru að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Já, við þurfum að rannsaka þau mál. Með hvaða hætti er það skynsamlegast? Ég hef lagt það til að við treystum á þær stofnanir og tryggjum að þær hafi bæði fjárhagslega burði og mannafla til að það sé gert (Forseti hringir.) en er að sjálfsögðu tilbúinn að skoða alla aðra þætti. Meðal annars höfum við horft til fyrirmynda erlendis þar sem við teljum að hlutirnir séu gerðir hvað best.