145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

skattaskjól á aflandseyjum.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum og reyndar í þessum ræðustól í síðustu viku tókum við í ríkisstjórninni þetta mál strax upp, tókum það upp á fyrsta ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á mánudegi eftir þá fyrstu helgi sem stjórnarandstaðan hafði boðað vantrauststillögu sem við felldum með 38 atkvæðum gegn 25. Þá tókum við þessi mál upp, bæði til að vega og meta hvernig umfjöllun væri annars staðar og stöðuna innan lands. Í kjölfarið tók formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins að okkar tillögu það upp að hefja rannsókn á því hvernig staðan væri. Við höfum lýst því yfir að við munum tryggja að þessir aðilar hafi alla þá burði til að rannsaka það sem rannsaka þarf. Hvort við eigum að velta fyrir okkur að ganga lengra og setja á laggirnar sérstakan samstarfshóp þessara aðila finnst mér koma vel til greina eins og gert hefur verið (Forseti hringir.) annars staðar. Ég hef varað við því að sett verði upp sérstök rannsóknarnefnd þingsins sem fari að rannsaka skattamál einstaklinga eða fyrirtækja. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að þingið hafi ákveðið eftirlitshlutverk, (Forseti hringir.) geti tekið þessi mál upp og verði upplýst á hverjum tíma þannig að það sé mjög mikilvægt að fyrir liggi á hverjum tíma hvernig sú staða er.