145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrínu Jakobsdóttur, að það er lágmarkskrafa við þessar aðstæður að tillaga um rannsóknarnefnd verði tekin á dagskrá og Alþingi taki að minnsta kosti afstöðu til hennar. Ætlum við Íslendingar að fara í þann farveg með þessi mál eða einhvern annan?

Bretar, Frakkar og fleiri þjóðir hafa þegar ákveðið mjög víðtæka opinbera rannsókn. Ekki bara að skatturinn, skattrannsóknarstjóri eða skattstjóri sinni sínu, sem hann að sjálfsögðu gerir, heldur að jafnframt verði sérstök opinber rannsókn á umfangi málsins, á því t.d. hvort bankar, annaðhvort einkabankar eða að hluta til í eigu ríkisins, hafi sérstaklega verið að beita sér í þessu skyni. Það er rætt í Noregi, það er rætt í Svíþjóð, Bretlandi, Hollandi, Frakklandi.

Það er enginn að tala um að rannsóknarnefnd á vegum Alþingis, rannsóknarnefnd sérfróðra aðila, ekki þingmenn sjálfir, sem í þetta færi færi að rannsaka einstök skattalagabrot. (Forseti hringir.) Hv. þm. Jón Gunnarsson þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þetta yrði rannsókn á umfangi málsins, mjög sambærileg við þá rannsókn sem fór fram á falli bankanna. Komi þar í ljós upplýsingar ganga þær sína leið (Forseti hringir.) til skattrannsóknarstjóra eða ríkisskattstjóra.

(Forseti hringir.) Þetta snýst um að taka málið föstum tökum og undanbrögðin eru undarleg.