145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ef við ætlum okkur að reyna að komast til botns í þessu máli eins og mér hefur virst á öllum stjórnmálaflokkum sem hafa síðustu tíu daga, tvær vikurnar, rætt þetta mál, þá held ég að það sé forgangsmál að samþykkja þá tillögu sem hér er lögð fram af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að þetta sé kortlagt. Ég tel að við þurfum að sjá, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan, hvert umfang þessa máls er. Hvað er hugsanlegt að stórum hluta sé komið fyrir í skattaskjólum? Er hugsanlegt að það sé af svipaðri stærðargráðu og gerist erlendis? Þá er líklegt að þetta kunni að vera 600–800 milljarðar. Við þurfum bara að vita þetta.

Ég rifja það síðan upp að hv. þingmenn Framsóknarflokksins fóru mjög sterklega fram á það á sínum tíma að það yrði gert opinskátt hverjir það eru sem eiga þessar kröfur. Ég tel sem Íslendingur og íslenskur borgari að það sé nauðsynlegt að ég og aðrir borgarar þessa lands fái að vita hvort það voru Íslendingar og íslensk fyrirtæki sem í gegnum skattaskjól (Forseti hringir.) áttu kröfur á íslensku bankana í stórum stíl eða gerðust jafnvel hrægammar og keyptu kröfur á hrakvirði. Þetta vil ég fá að vita. Ég treysti ríkinu fullkomlega til þess að standa fyrir slíkri rannsókn.