145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ástæða þess að við erum að ræða þetta hér eru einfaldlega loðin svör og undanflæmingur forustumanna stjórnarflokkanna sem hafa fengið þær spurningar undanfarna daga og í dag að hluta til hvort þeir séu sammála því að með þessum hætti eða eftir atvikum einhverjum öðrum verði tryggt að fram fari rækileg opinber rannsókn á umfangi og eðli og afleiðingum þessarar aflandsstarfsemi þar sem Íslendingar virðast því miður ætla að flagga vafasömu heimsmeti. Hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að rannsaka þetta ofan í kjölinn og styðja um leið við embættin sem fara ofan í einstök mál frá þeim sjónarhóli hvort þar hafi verið haft rangt við? Þannig gerist þetta samhliða og hvort í tengslum við annað eins og rannsóknarnefnd Alþingis og síðan embætti sérstaks saksóknara unnu á sínum tíma. Nákvæmlega eins á að fara í þetta mál. Það er mjög tortryggilegt að menn séu með undanbrögð (Forseti hringir.) í þessum efnum. Þannig ég tek undir kröfur um að Alþingi sjálft taki afstöðu til þess hvað það vill gera í þessum efnum? Það verður auðvitað best gert með því að taka nefnda tillögu strax á dagskrá.