145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að mörgum hefur ekki þótt það tiltökumál að menn væru með félög í þessum skattaskjólum, í þessum upplýsingasvartholum. Menn hafa varið sig þegar þeim hefur fundist þeim vera brigslað um skattundanskot. Gott og vel. Það kemur bara í ljós að mjög mörgum finnst allt í lagi að eiga félög í þessum ríkjum.

Í þessum lið, um fundarstjórn forseta, eigum við ekki að vera með efnislega umræðu. Það er alveg rétt. Hér er verið að krefjast efnislegrar umræðu í tilteknu máli, máli sem er gert til að ræða það mál efnislega, þ.e. tillaga Vinstri grænna. Það er þess vegna sem við eigum að setja hana á dagskrá og ræða hana efnislega til þess að þurfa ekki að taka mínútuumræður efnislega um mál sem brennur á þjóðinni og þinginu öllu, eins og ætti að vera öllu heldur, frekar en vera alltaf að karpa um það í fundarstjórn hvort við eigum að ræða svona mál eða ekki.

Að sjálfsögðu eigum við að ræða þetta, það er deginum ljósara. Mér þykir fráleitt að stinga upp á því að það sé einhver óþarfi. Þetta er mál málanna í dag. Við eigum að ræða þetta. Tillagan liggur fyrir. Setjum þetta á dagskrá. ræðum hana. Útkljáum þetta í atkvæðagreiðslu og sjáum hvað setur.