145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra var mín ræða öll um það hvernig ætti að bregðast við þessu máli. Ég taldi þá að nauðsynlegt væri að kortleggja þetta mál og reyna að grafast fyrir um hversu stórt það væri. Sömuleiðis taldi ég koma til greina að banna Íslendingum að eiga reikninga í skattaparadísum sem ekki uppfylltu kröfur Vesturlanda og OECD um skil á reikningum og öðru slíku.

Varðandi tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst mér sjálfsagt að hún verði tekin á dagskrá við fyrstu hentugleika og þá eigi síðar en þegar þing kemur næst saman. Það er bara sjálfsagt mál. Ég hef metið hæstv. forsætisráðherra sem ég ber allnokkurt traust til með þeim hætti að það væri honum ekki á móti skapi. Ég tel að ef hæstv. ríkisstjórn vill ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um framgang mála sem hún leggur áherslu á verði hún að koma til móts við stjórnarandstöðuna um mál sem hún leggur áherslu á. Ég tel, (Forseti hringir.) þó að ég sé ekki að minnsta kosti enn þá kominn í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að þetta sé eitt af forgangsmálunum.(Gripið fram í.)