145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:19]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að mínu mati það sem fram kom í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan að umræðan um þessi mál snýst ekki lengur um skattalagabrot eða hvort önnur lög hafi verið brotin yfir höfuð heldur er þetta orðið hápólitískt mál. Það er einmitt í því ljósi sem það er í hæsta máta undarlegt, í það minnsta að mínu viti, að tilteknir hv. þingmenn vilji beita sér fyrir því að Alþingi hlutist til um hlutverk sem á heima hjá framkvæmdarvaldinu. Það er bara eins og menn vilji ýta því til hliðar sem hefur verið grundvallaratriði í stjórnskipan Íslands, sem er þrískipting ríkisvaldsins. (Gripið fram í.) Það er rangt sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að hér sé bara um að ræða þingsályktunartillögu um almenna rannsókn. Það kemur sérstaklega fram í tillögunni að þessi rannsókn gæti haft áhrif til endurákvörðunar skatta. (Forseti hringir.) Þar með er beinlínis verið að leggja til að Alþingi hlutist til um verkefni sem með sönnu og réttu eiga heima hjá (Forseti hringir.)framkvæmdarvaldinu.